Ríkisstjórn Japans hefur samþykkt útgjöld til hermála fyrir næsta ár og hafa þau aldrei verið meiri. Útgjöldin nema um 4.800 milljörðum króna, sem er aukning um 1,3 prósent frá fyrra ári. Guardian segir frá þessu.
Ástandið á Kóreuskaga skýrir aukinn vígbúnað landsins en þetta er í sjötta sinn á jafnmörgum árum sem Shinzo Abe, forsætisráðherra landsins, setur aukið kapp í uppbyggingu herafla landsins.
Á meðal þess sem til stendur að gera á næsta ári er að setja upp dýr eldflaugavarnakerfi sem og koma upp eldflaugum sem hægt væri að skjóta á Norður-Kóreu að fyrra bragði. Sú aðgerð hefur hins vegar verið umdeild, þar sem Japanir hafa frá lokum seinna stríðis ekki haft her í eiginlegri merkingu þess orðs, heldur varnarsveitir, eins og það er orðað í Japan.
Útgjöld Japana til hermála aldrei verið meiri
Atli Ísleifsson skrifar
