Erlent

Sakaður um að hafa áreitt ungliða kynferðislega

Atli Ísleifsson skrifar
Trond Giske hefur átt sæti á norska þinginu frá 1997.
Trond Giske hefur átt sæti á norska þinginu frá 1997. Vísir/EPA

Trond Giske, varaformaður norska Verkamannaflokksins, hefur verið sakaður um að hafa áreitt stjórnmálakonu í ungliðahreyfingu flokksins kynferðislega.



NRK  greinir frá því að konan hafi í kjölfarið sagt skilið við stjórnmálin, en atvikin eiga að hafa átt sér stað fyrir nokkrum árum síðan.



Giske segir svari til NRK að hann vilji ekki tjá sig um þetta einstaka mál, en kveðst harma hegðun sína.



Miðstjórn Verkamannaflokksins var kölluð til neyðarfundar í gærkvöldi vegna málsins, en þar kom fram að fleiri konur hafi nú sakað Giske um að hafa veitt þeim „óumbeðna athygli“.



Veitti Giske áminningu

Formaðurinn Jonas Gahr Støre staðfesti að ásakanir snúi að „óþægilegum atvikum af kynferðislegum toga“ og að hann hafi veitt Giske áminningu vegna málsins. Málið sé tekið mjög alvarlega, en Støre kveðst þó enn bera traust til Giske.



Verkamannaflokkurinn er stærsti flokkurinn á norska þinginu en er í stjórnarandstöðu. Hann hlaut 27,4 prósent fylgi í þingkosningunum í haust.



Giske hefur átt sæti á norska þinginu frá 1997. Hann hefur á ferli sínum gegnt embætti ráðherra kirkju- og menntamála, menningarmála og viðskipta- og iðnaðarmála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×