Erlent

Rayjoy vill ekki hitta Puigdemont

Samúel Karl Ólason skrifar
Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar.
Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar. Vísir/EPA
Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, segist ekki ætla að hitta Carles Puigdemont, stjórnmálamanninn frá Katalóníu sem er í sjálfskipaðri útlegð í Belgíu. Puigdemont hafði kallað eftir því að þeir myndu hittast, í öðru landi en Spáni, eftir að aðskilnaðarsinnar hlutu meirihluta á þingi Katalóníu í kosningum þar í gær.



Snúi Puigdemont aftur til Spánar gæti hann verið handtekinn og ákærður fyrir, meðal annars, landráð og misnotkun á opinberu fé.

Aðskilnaðarsinnar verða með nauman meirihluta á héraðsþinginu, nokkuð minni en á síðasta þingi, sem var leyst upp af spænska ríkinu með vísun í 155. grein stjórnarskrárinnar eftir að aðskilnaðarsinnar héldu kosningu í héraðinu um sjálfstæði frá Spáni. Spánarstjórn boðaði til kosninganna.

Borgaraflokkurinn (Ciudadanos) verður stærsti flokkurinn á þinginu með rúmlega fjórðung atkvæða, en hann styður áframhaldandi samband Katalóníu og Spánar. Ekki er því ljóst að svo stöddu hverjum verður veitt umboð til myndunar stjórnar. Inés Arrimadas, formaður Ciudadanos, sagði flokkinn hafa unnið sigur, en viðurkenndi að erfitt yrði að mynda stjórn þó að hún myndi láta á það reyna.

Aðskilnaðarsinnar eru þó samanlagt með meirihluta á þinginu.

Partit Popular, flokkur Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, beið afhroð í kosningunum og tryggði sér einungis ellefu af 135 þingsætum sem í boði voru.

Rajoy sagði í dag, án þess að nefna Puigdemont, að hann myndi ræða við hvern þann sem myndi taka við stjórn ríkisstjórnar Katalóníu. Sá aðili yrði hins vegar að vera með aðsetur í héraðinu. Hann sagði Borgaraflokkinn vera sigurvegar kosninganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×