Erlent

Mestu fangaskipti í Úkraínu frá upphafi átakanna

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Þessi uppreisnarmaður var frelsinu feginn í gær.
Þessi uppreisnarmaður var frelsinu feginn í gær. vísir/afp
Aðskilnaðarsinnar í austurhluta Úkraínu og úkraínski herinn skiptust í gær á föngum. Um er að ræða mestu fangaskipti frá því átök á svæðinu brutust út árið 2014 og þau fyrstu í fimmtán mánuði.

Úkraínski herinn endurheimti sjötíu fanga sem aðskilnaðarsinnarnir, sem eru á bandi Rússa, höfðu haldið í Donetsk og Luhansk. Á móti voru 260 uppreisnarmenn látnir lausir.

Fangaskipti voru á meðal þess sem kveðið var á um í friðarsamkomulaginu sem undirritað var í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands, fyrir tveimur árum. Hins vegar hefur lítið orðið af fangaskiptum síðan þá. Greinendur sögðu í gær að fangaskipti gærdagsins bentu ekki til þess að friður væri að nást á svæðinu enda héldu báðar fylkingar enn miklum fjölda fanga.

Samkvæmt BBC ætluðu úkraínsk yfirvöld að láta 306 fanga lausa. Sumir þeirra vildu hins vegar ekki fara aftur til aðskilnaðarsinnanna en ástæður þess eru ekki þekktar. Samningaviðræður um fangaskiptin komu meðal annars á borð Rússlandsforseta og Úkraínuforseta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×