Viðskipti erlent

Apple biður viðskiptavini sína afsökunar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Samsæriskenningar þess efnis að Apple hægi viljandi á eldri gerðum síma til að hvetja til kaupa á nýrri gerð hafa oft litið dagsins ljós undanfarin ár.
Samsæriskenningar þess efnis að Apple hægi viljandi á eldri gerðum síma til að hvetja til kaupa á nýrri gerð hafa oft litið dagsins ljós undanfarin ár. Vísir/Getty
Tæknirisinn Apple hefur beðist afsökunar á því að hægja á iPhone-símum viðskiptavina sinna. Fyrirtækið birti afsökunarbeiðnina á vefsíðu sinni í dag og hyggst koma til móts við óánægða notendur.

Í síðustu viku staðfesti Apple grunsemdir margra um að fyrirtækið hafi hægt viljandi á eldri gerðum iPhone-snjallsíma. Uppgefin ástæða fyrirtækisins var þá sú að gæði rafhlaðna í eldri símum rýrni með tímanum og því þurfi að hægja á stýrikerfi tækjanna til að halda í við rafhlöðuna.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu, sem birtist í dag, er þó áréttað að aldrei hafi neitt verið gert vísvitandi í þeim tilgangi að stytta líftíma símanna.

„Fyrst og fremst höfum við aldrei – og myndum aldrei – gera neitt sem yrði vísvitandi til þess að stytta líftíma nokkurrar Apple-vöru, eða gera lítið úr upplifun notenda til þess að keyra uppfærslur,“ segir í tilkynningunni.

Lækka verð á rafhlöðuskiptaþjónustu sinni

Þá hyggst fyrirtækið leita ýmissa leiða til að koma til móts við viðskiptavini sína vegna málsins. Verð á rafhlöðuskiptum í símtækjum sem ekki eru lengur í ábyrgð mun til að mynda lækka um 50 Bandaríkjadali, eða rúmar 5000 íslenskar krónur. Um er að ræða síma af gerðinni iPhone 6 og allar yngri útgáfur sem komið hafa á eftir. Verð fyrir rafhlöðuskipti hjá Apple fer úr 79 Bandaríkjadölum, eða rúmum 8000 íslenskum krónum, og niður í 29 dali, eða um 3000 íslenskar krónur.

Þá ætlar Apple gefa út hugbúnað á næsta ári sem gerir notendum kleift að fylgjast með ástandi rafhlaða í iPhone-símum og meta þannig líftíma þeirra.

Samsæriskenningar þess efnis að Apple hægi viljandi á eldri gerðum síma til að hvetja til kaupa á nýrri gerð hafa oft litið dagsins ljós undanfarin ár. Þá hafa tveir Ísraelar kært fyrirtækið fyrir að hafa meðal annars leynt notendur upplýsingum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×