Erlent

Bandaríkin reiðubúin að ræða kjarnorkuafvopnun við Norður-Kóreu

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Vísir/EPA
Bandaríkin eru reiðubúin að ræða kjarnorkuafvopnun við Norður-Kóreu án nokkurra fyrirvara. Þetta sagði Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í dag.

„Við skulum bara hittast og tala um veðrið ef þið viljið,“ sagði hann á umræðufundi hugveitunnar Atlantic Council í Washington DC í dag.

Svo virðist sem Bandaríkin séu að mildast í stefnu sinni varðandi Norður-Kóreu. Utanríkisráðuneytið hefur áður sagt að Norður-Kóreumenn verði að sýna það í verki að þeir séu reiðubúnir að hætta kjarnorkutilraunum sínum, áður en hægt er að hefja viðræður.

Það hafa þeir sannarlega ekki gert, heldur þvert á móti hert á vopnaþróun sinni síðustu mánuði.

Þá sagði fulltrúi Bandaríkjanna í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna að norður-kóresku þjóðinni yrði tortímt kæmi til stríðs á fundi öryggisráðsins þann 29. nóvember síðastliðinn.

Tillerson sagði þó að refsiaðgerðir gagnvart Norður-Kóreu verði enn í gildi þar til „fyrsta sprengjan lendir.“

Hann sagði Bandaríkin jafnframt ekki geta sætt sig við að Norður-Kórea ætti kjarnorkuvopn.

„Við skulum bara hittast og tala um veðrið ef þið viljið og tala um hvort borðið verður ferkantað eða hringlótt ef það er það sem fólk vill,“ sagði Tillerson.

„Svo getum við farið að útbúa kort, áætlun, um hvaða markmiðum við viljum vinna að.“

Tillerson sagði einnig að yfirvöld í Kína væru reiðubúin að taka við flóttamönnum ef þjóðirnar fara í stríð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×