Innlent

Heildarhækkunin til heilbrigðismála ríflega 21 milljarður króna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir er heilbrigðisráðherra. Hér er hún á fyrsta degi sínum í ráðuneytinu þegar hún tók við lyklunum.
Svandís Svavarsdóttir er heilbrigðisráðherra. Hér er hún á fyrsta degi sínum í ráðuneytinu þegar hún tók við lyklunum. vísir/eyþór
Heildarhækkun fjárframlaga til heilbrigðismála milli fjárlaga 2017 og 2018 er ríflega 21 milljarður króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármála-og efnahagsráðuneytinu en Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, kynnti frumvarpið á blaðamannafundi nú í morgun. Frumvarpið er fyrsta fjárlagafrumvarpið sem ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks leggur fram.

Fram kom í kynningu Bjarna að á næsta ári er lögð til 1,9 milljarða króna innspýting í heilsugæsluna. Þá er lagt til að sjúkrahúsþjónusta verði styrkt um 8,5 milljarða og framlög til lyfjakaupa hækki um 4,2 milljarða. Niðurgreiðsla á tannlæknakostnaði aldraðra og öryrkja á svo að hækka um hálfan milljarð.

Hvað varðar heilsugæsluna þá er lagt til að framlög til þess málaflokks hækki meðal annars um 700 milljónir króna til að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu.

Á meðal þess sem tilgreint er í fjárheimildum til sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu í fjárlagafrumvarpinu er aukning um nettó 1,2 milljarða króna vegna byggingar nýs Landspítala.

 

Fram kemur í frumvarpinu að helstu verkefni næsta árs verði fullnaðarhönnun meðferðarkjarna, sömuleiðis fullnaðarhönnun rannsóknarhúss sem og fullnaðarhönnun bílastæða,- tækni- og skrifstofuhúsnæðis. Auk þess er gert ráð fyrir að bygging nýs meðferðarkjarna hefjist.

Þá er lagt til að 247 milljónir króna fari í rekstur sjúkrahótels á lóð Landspítala við Hringbraut. Auk þess er áætlað er að taka jáeindaskanna í notkun á Landspítala á næsta ári og er fyrirhugað að veita 340 milljónum króna í hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×