Erlent

Litlu munar á sjálfstæðis- og sambandssinnum í Katalóníu

Kjartan Kjartansson skrifar
Kosningaveggspjald sem lýsir því yfir að Puigdemont sé forseti Katalóna.
Kosningaveggspjald sem lýsir því yfir að Puigdemont sé forseti Katalóna. Vísir/AFP
Skoðanakannanir benda til þess að mjótt verði á mununum á milli stuðningsmanna og andstæðinga sjálfstæðis í héraðskosningum í Katalóníu sem fara fram á fimmtudag. Boðað var til kosninganna eftir að landsstjórnin leysti héraðsstjórnina upp í kjölfar einhliða sjálfstæðisyfirlýsingar hennar.

Útlit er fyrir að Lýðveldissinnaði vinstriflokkur Katalóníu hljóti flest atkvæði en flokkurinn styður sjálfstæði héraðsins. Hann fengi hins vegar aðeins einu eða tveimur þingsætum fleiri en Borgararnir, miðhægriflokkur sem vill að Katalónía verði áfram hluti af Spáni.

Flokkur Carles Puigdemont, fyrrverandi forseta héraðsstjórnarinnar, yrði þriðji stærsti flokkurinn.  Sjálfstæðissinnar hefðu þá ekki meirihluta á katalónska héraðsþinginu.

Puigdemont flúði til Belgíu eftir að hann og aðrir ráðherrar í héraðsstjórninni voru ákærðir fyrir uppreisn gegn spænska ríkinu. Hann hefur sagt að spænsk yfirvöld verði að fella ákærurnar niður ef hann og aðrir sjálfstæðissinnar vinna sigur í kosningunum, að því er kemur fram í frétt BBC.

Sjálfstæðissinnar á þinginu lýstu yfir sjálfstæði 27. október eftir umdeilda þjóðaratkvæðagreiðslu sem spænsk stjórnvöld reyndu að koma í veg fyrir. Mariano Rajoy, forsætisráðherra, leysti síðar héraðsstjórnina upp og boðaði til kosninga þar 21. desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×