Gengi rafmyntarinnar Bitcoin gagnvart Bandaríkjadal tók skarpa dýfu, alls um sextán prósent, í gær eftir mikinn uppgang undanfarinna daga. Var eitt Bitcoin í gær 9.600 dala virði samanborið við 11.434 dali á miðvikudaginn en Bitcoin hafði aldrei verið verðmætara en þá.
Virði Bitcoin hefur samt sem áður aukist gríðarlega frá áramótum en eitt Bitcoin var um þúsund dala virði í upphafi árs. Ýmsir fjárfestar hafa því grætt mikið á uppgangi þessarar rafrænu myntar.
Í viðtali við BBC í gær sagði hagfræðiprófessorinn Garrick Hileman að þar sem Bitcoin væri eftirlitslaus mynt og þar sem færri sýsluðu með hana væru sveiflur sem þessar venjulegar.
Neil Wilson hjá greiningardeild ETX í Lundúnum sagði viðskipti gærdagsins mestu rússíbanareið sem hann hefði séð. Stór ástæða fyrir þessum sveiflum væri hve fjárfestarnir væru fáir og hefðu þar að auki litla sem enga reynslu.
