Erlent

Segja að ekki standi til að reka Tillerson

Atli Ísleifsson skrifar
Rex Tillerson og Donald Trump greinir einna helst á um málefni Norður-Kóreu og Írans.
Rex Tillerson og Donald Trump greinir einna helst á um málefni Norður-Kóreu og Írans. Vísir/AFP
Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna segist hafa verið fullvissað um það frá skrifstofu Bandaríkjaforseta að ekki standi til að reka utanríkisráðherrann Rex Tillerson og ráða í staðinn Mike Pompeo sem stjórnað hefur leyniþjónustunni CIA síðustu mánuði.

Þrálátur orðrómur hefur verið um þetta í Washington síðustu daga og þegar Donald Trump forseti var spurður að því hvort hann ætlaði að reka Tillerson í gær svaraði hann afar loðið.

Trump og Tillerson hafa lengi eldað grátt silfur saman og er fullyrt að Tillerson hafi kallað Trump hálfvita. Tillerson hefur aðspurður hvorki játað því né neitað.

Tillerson og Trump greinir einna helst á um málefni Norður-Kóreu og Írans. Hefur Trump meðal annars sagt Tillerson sóa tíma sínum þegar hann reyndi að ræða við yfirvöld í Norður-Kóreu um að láta af kjarnorkutilraunum.

Á blaðamannafundi í gær sagði Sarah Huckabee Sanders, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, að Tillerson hefði ekki verið rekinn. „Tillerson heldur áfram að leiða utanríkisráðuneytið og öll ríkisstjórnin einbeitir sér að því að ljúka þessu ótrúlega árangursríka fyrsta ári,“ sagði Sanders.


Tengdar fréttir

Trump vill losa sig við Tillerson

Forsetinn er sagður hafa það í hyggju að losa sig við utanríkisráðherrann Rex Tillerson. Þeir eiga ekki skap saman og eru skoðanir þeirra í utanríkisstefnu ósamræmdar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×