Hundurinn Rökkva verður ekki fjarlægður af heimili sínu að Álfhólsvegi 145. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar í umhverfis- og auðlindamálum (ÚUA).
Álfhólsvegur 145 er tvíbýli og býr Rökkva, sem er af tegundinni Alaskan Malamute, á neðri hæð hjá eigendum og þremur öðrum hundum. Á efri hæðinni er tvo hunda að finna en þeir eru í eigu Semu Erlu Serdar.
Atvik málsins eru þau að í mars á þessu ári var annar hunda Semu úti í garði ásamt Rökkvu. Niðurstaðan varð sú að Rökkva beit hundinn og Semu. Sex mánuðum síðar beit Rökkva hinn hund Semu.
„[Sema] þori ekki inn á lóðina nema hún viti að enginn sé heima á neðri hæðinni þar sem íbúar þar hafi haldið áfram að hleypa hundunum eftirlitslausum út, einnig hundinum sem hafi bitið kæranda,“ segir meðal annars í rökstuðningi Semu fyrir nefndinni.
Í athugasemdum eigenda Rökkvu segir að henni standi ógn af öðrum hundum og hún bregðist við þeim á árásargjarnan hátt. Í bæði skiptin sem óhöpp hafi orðið hafi íbúi efri hæðarinnar sett hunda sína út á meðan þeirra hundar voru úti.
Niðurstaða heilbrigðisnefndar, sem kærð var til ÚUA, fól í sér að Rökkva væri send í atferlismat. Ekki þótti ástæða til að fjarlægja hana. Þá sagði nefndin að auðveldlega mætti koma í veg fyrir rimmur af þessu tagi.
„Ég er búin að grípa til ráðstafana svo við lendum ekki oftar í þessum hundi. Ég er auðvitað ekki sátt við úrskurðinn,“ segir Sema Erla en vill ekki tjá sig um málið að öðru leyti.
Hafnað að fjarlægja tíkina Rökkvu af heimili sínu þrátt fyrir bit
Jóhann Óli Eiðsson skrifar
