Erlent

Norður-kóreska kolkrabbaveiðimenn rak á land í Japan

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Bátur mannanna fannst í höfn borgarinnar Yurihonjo.
Bátur mannanna fannst í höfn borgarinnar Yurihonjo. Vísir/Getty
Bát sem flutti átta menn, sem segjast vera norður-kóreskir sjóarar, rak á land í Japan í gær. Japanska lögreglan segir mennina hafa fundist í höfn borgarinnar Yurihonjo á norðvesturströnd landsins seint í gærkvöldi og voru þeir fluttir á næstu lögreglustöð.

Mennirnir, sem sagðir eru hafa verið á kolkrabbaveiðum, halda því fram í yfirheyrslum að þeir hafi misst stjórn á bát sínum og að þá hafi, eftir töluverðar hrakningar, að lokum rekið að ströndum Japans.

Það er nokkuð óalgengt að norður-kóreskir bátar komi að landi í Japan en japanska strandgæslan hefur þó oft þurft að koma þeim til bjargar. Til að mynda reyndu níu Norður-Kóreumenn að sigla til Suður-Kóreu árið 2011. Það tókst þó ekki betur en svo að þeir enduðu í Japan.

Hins vegar gerist oft að í bátunum, sem alla jafna eru einfaldir að gerð og hröralegir, finnast líkamsleifar - sem gefur til kynna að þá hafi rekið lengi.

Sjómennirnir átta sem komu til Japns í gær þurftu þó enga aðstoð við að yfirgefa bátinn. Telja þarlendir miðlar það til marks um að þeir hafi ekki verið lengi að sigla þessa rúmlega 800 kílómetra af sjó sem aðskilja Japan og Norður-Kóreu.

Ekki er vitað hvort mennirnir ætli sér að sækja um hæli í Japan eða fara aftur til Norður-Kóreu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×