Margir netverjar skemmta sér nú konunglega yfir kosningamyndbandi VG sem þykir heldur neyðarlegt fyrir flokkinn, svo vægt sé til orða tekið.
Í gærkvöldi greindi RÚV frá því að fulltrúar flokkanna, aðrir en formennirnir, hefðu skálað fyrir vel unnum störfum í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu að lokinni þeirra vinnu í stjórnarmyndunarviðræðum. Ýmsir á Facebook hafa lagt það til, í ljósi þeirra fregna, að vert sé að kalla væntanlega ríkisstjórn Kampavíns- eða Freyðivínsstjórnina.
Ragnar Kjartansson listamaður, sem stundum hefur kallað sig Rassa prump, hefur verið einn helsti stuðningsmaður Vinstri grænna lengi og hefur látið til sín taka í kosningabaráttu flokksins.
Hann hefur gert nokkur myndbönd, meðal annarra umrætt myndband sem birtist skömmu fyrir síðustu kosningar. Þar er látið sem myndbandið sé á vegum Skrímsladeildarinnar, en svo er kölluð og höfð um hóp afar flokkshollra Sjálfstæðismanna sem einatt ganga afar hart fram í kosningabaráttu.
Myndbandið er tekið í stjórnarráðshúsinu við Tjarnargötu og þar er hópur galaklæddra gesta í veislu, skála í kampavíni; meðal annars fyrir hækkun lágmarkslauna.
„Nei, þetta er heldur ólíklegt,“ segir Ragnar svo í lok senunnar. „Líklegra er að þegar stjórnin springur sirka næsta vor, þá verði hver einasti Engeyingur, frændi hans og hundur, kominn á nýjan Porche Cheyenne. Kjósum alvöru leiðtoga. Kjósum motherfucking Katrínu“.
Uppfært klukkan 13:19
Í fyrri útgáfu fréttarinnar kom fram að formennirnir hefðu skálað í freyðivíni. Það voru hins vegar aðrir fulltrúar flokkanna sem komu að stjórnarmyndunarviðræðum.
Innlent