Erlent

Access Hollywood svarar Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty

Starfsmenn Access Hollywood hafa sent frá sér skýr skilaboð vegna fregna um að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hafi haldið því fram að myndband sem birt var fyrir kosningarnar í fyrra, þar sem hann stærði sig af því að geta „gripið í píkurnar á konum“ í skjóli frægðar sinnar, væri í raun falsað.

Trump mun hafa sagt þingmanni og ráðgjafa sínum að myndbandið væri ekki raunverulegt, samkvæmt frétt New York Times.

Sjá einnig: Trump stærði sig af því að komast upp með að káfa á konum

„Við skulum hafa það á hreinu. Myndbandið er raunverulegt. Munið eftir afsökuninni hans á þeim tíma um að þetta hefði verið „búningsklefaspjall“. Hann sagði öll þessi orð,“ sagði kynnirinn Natalie Morales á Access Hollywood.

Sarah Huckabee Sanders, blaðamannafulltrúi Hvíta hússins, vildi í gær ekki neita því að Trump teldi myndbandið vera falsað. Jafnvel þó hann hefði upprunalega viðurkennt að það væri raunverulegt og jafnvel beðist afsökunar.

Eftir að myndbandið var birt í fyrra, stigu margar konur fram og sökuðu Trump um kynferðisbrot og áreitni. Hann hefur sagt að þær séu allar að ljúga og hótaði jafnvel að lögsækja þær, án þess að fylgja hótuninni eftir.

Nú er forsetinn sagður hafa haldið því fram að viðbrögðin við ásökunum gegn Roy Moore, frambjóðanda Repúblikanaflokksins í Alabama, og ásakanirnar sjálfar séu svipaðar og ásakanir konanna gegn Trump eftir að myndbandið var birt.

Roy Moore hefur verið sakaður um að eltast við táningsstúlkur þegar hann var á þrítugsaldri og um að hafa reynt að nauðga minnst einni þeirra. Honum var á sínum tíma meinað að koma inn í verslunarmiðstöð í Alabama vegna hegðunnar sinnar. Margar konur hafa stigið fram gegn Moore, sem segir einnig að þær séu að ljúga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×