Annar risademantur hefur fundist í Síerra Leóne í vesturhluta Afríku á sama svæði og „Friðardemanturinn“ svokallaði fannst fyrr á árinu.
Demanturinn sem um ræðir er 476 karata og um 100 grömm og er talið að hann sé í 29. sæti á lista yfir stærstu demanta sem fundist hafa í heiminum. Enn liggur ekki fyrir hvað hann er metinn á mikið.
Friðardemanturinn, sem er 709 karata, fannst í Kono-héraði í austurhluta Síerra Leóne fyrir um átta mánuðum. Sahr Wonday, talsmaður þarlendra yfirvalda, segir að þessi steinn hafi einnig fundist í Kono.
Námavinnslufélagið Meya Mining fann demantinn og hefur þegar fengið heimild hjá yfirvöldum til að flytja hann úr landi. Demanturinn verður seldur hæstbjóðanda á alþjóðlegu uppboði.
Gera aðra tilraun til að selja demantinn
Önnur tilraun verður gerð til að selja Friðardemantinn á uppboði í New York í næsta mánuði. 7,8 milljónir Bandaríkjadala, um 810 milljónir króna, voru boðnar í steininn á uppboði í maí en því boði var hafnað.
Prestur í Kono fann Friðardemantinn í mars síðastliðinn kom honum í hendur yfirvalda til að þau gætu fjármagnað uppbyggingu í hinu fátæka Kono-héraði.
Sá stærsti fannst 1905
Sierra Leone er eitt af fátækustu ríkjum heims en í landinu búa um sex milljónir manna.
Stærsti demantur sem hefur nokkurn tímann fundist svo vitað sé fannst í Suður-Afríku árið 1905. Cullinan-demanturinn var 3.106 karata og var meðal annars notaður við gerð bresku krúnudjásnanna.
Að neðan má sjá prestinn Emmanuel Momoh með Friðardemantinn svokallaða.
Annar risademantur fannst í Síerra Leóne
Tengdar fréttir
Risademantur fannst í Suður-Afríku
Risademantur fannst í vikunni í Cullinan námunni í Suður-Afríku en náman er þekkt fyrir að þar hafa stærstu demantar í heimi fundist. Þessi sem hér um ræðir er 507 karöt, eða 100 grömm, að stærð og er verðmæti hans áætlað vera rúmlega 12 milljarðar kr.
Prestur fann risademant í Sierra Leone
Emmanuel Momoh hefur komið demantinum, sem er 706 karata, í hendur forseta landsins.