Til stóð að Holloway myndi verja belti sitt í fjaðurvigt gegn Edgar en Edgar þurfti að draga sig úr bardaganum í seinustu viku vegna meiðsla. Ekki er vitað nákvæmlega hvað sé að Edgar en hann þarf ekki að fara í aðgerð og á að vera tilbúinn eftir 12 vikur.
UFC tilkynnti í gær á Twitter reikningi sínum að Jose Aldo muni koma í stað Edgar.
BUT WAIT - THERE'S MORE!@BlessedMMA will defend his belt for the first time ... against the guy he took it from! @JoseAldoJunior steps into the main event at #UFC218! pic.twitter.com/eVo8yjw0vA
— UFC (@ufc) November 12, 2017
Gefst Aldo þar með tækifæri til að hefna fyrir tap gegn Holloway frá því í sumar en þeir mættust á UFC 212 í heimalandi Aldo, Brasilíu. Sigraði Holloway þann bardaga með tæknilegu rothöggi í 3. lotu og sameinaði með því fjaðurvigtarbelti UFC.
Var það aðeins annað tap Aldo í UFC en Conor Mcgregor rotaði hann eftirminnilega eftir aðeins 13 sekúndur fyrir tæplega tveim árum síðan.
Aldo hefur ekki barist síðan hann laut í lægra haldi gegn Holloway en til stóð að hann myndi mæta Ricardo Lamas 16. desember næstkomandi.
Holloway er á magnaðri 11 bardaga sigurgöngu en hann hefur ekki tapað bardaga frá árinu 2013 þegar Conor Mcgregor hafði betur gegn honum eftir dómaraákvörðun.
UFC 218 verður í beinni útsendingu á Stöð 2 sport. Aðrir bardagar það kvöld eru m.a.:
Alistair Overeem - Francis Ngannou
Henry Cejudo - Sergio Pettis
Eddie Alvarez - Justin Gaethje
Tecia Torres - Michelle Waterson