Erlent

Lögregla staðfestir að 71 manns hafi látist í brunanum í Grenfell-turni

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Margir létu lífið í brunanum sem átti sér stað um miðjan júní.
Margir létu lífið í brunanum sem átti sér stað um miðjan júní. Vísir/AFP
Lögreglan í London hefur staðfest að alls hafi 71 manns látist í brunanum í Grenfell-turni í vesturhluta London. Eldurinn braust út þann 14. júní á þessu ári og logaði byggingin í nærri 60 klukkustundir.

Þetta kom í ljós í tilkynningu lögreglu í dag, en borin voru kennsl á lík síðustu fórnarlömba brunans. Það voru hin 71 árs Victoria King og dóttir hennar Alexandra Atala.

Rannsókn málsins er á lokaskrefum og búið er að kanna öll svæði byggingarinnar. Þrátt fyrir það bendir lögreglan á að byggingin sé ennþá til rannsóknar og gæti sú rannsókn dregist fram á næsta vor.

Aðstæðurnar í kjölfar brunans voru nærri því ólýsanlegar en eldurinn breiddist hratt út. Upptökin eru talin hafa komið frá ísskáp sem staðsettur var á fjórðu hæð turnsins.

Stuart Cundy, sem leiðir rannsóknina, segir atburðinn vera hræðilegan og að áhrif hans hafi haft áhrif á fjölda fólks. Rannsóknin sé til þess fallin að koma upplýsingum til ættingja og vina fórnarlambanna um hvað gerðist raunverulega.

Klæðningin ólögleg í Bretlandi

Fjármálaráðherra Bretlands steig fram í kjölfar brunans og sagði að klæðningin á Grenfell-turni væri ólögleg þar í landi. Byggingarreglugerðir kvæðu á um það. Ljóst væri að lélegt ástand klæðningar hússins hafi spilað stóran þátt í hraðri útbreiðslu eldsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×