Hátt í níutíu manns hafa sagt sig úr VG
Þetta segir Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri flokksins í samtali við Vísi. Þá hafa á milli 20 og 25 manns skráð sig í flokkinn síðan á mánudag.
Strax síðdegis á mánudag höfðu þrjátíu manns sagt sig úr flokknum en alls eru skráðir meðlimir VG tæplega sex þúsund. Eins og greint hefur verið frá hefur gætt þó nokkurrar ólgu innan grasrótar flokksins með viðræðurnar við Sjálfstæðisflokkinn, en á meðal þeirra sem hafa hætt í flokknum vegna þeirra er Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, sem verið hefur varaþingmaður flokksins og var einnig framkvæmdastjóri hans.
Þá greiddu tveir þingmenn flokksins atkvæði gegn því að hefja formlegar viðræður við Sjálfstæðisflokk og Framsókn, þau Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson. Auk þess sendi ungliðahreyfing flokksins, UVG, frá sér nokkuð harðorða ályktun á mánudagskvöld þar sem því var lýst að hreyfingin væri eindregið á móti því að flokkurinn færi í ríkisstjórn með Sjálfstæðismönnum.
Tengdar fréttir
Drífa hættir í VG og segir ríkisstjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokk verða „eins og að éta skít“
Drífa Snædal framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins og fyrrverandi varaþingmaður Vinstri Grænna hefur sagt sig úr flokknum vegna ríkisstjórnarmyndunarviðræðna flokksins við Sjálfstæðisflokkinn.
Katrín: Allir flokkar hafa drauma, langanir og þrár varðandi ráðuneyti
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, er bjartsýn á að ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarfloks verði að veruleika undir hennar forystu.
Enn ekki steytt á neinum skerjum í viðræðunum
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, komu saman til fundar í formlegum stjórnarmyndunarviðræðum flokkanna í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu klukkan 13 í dag.