Erlent

Frestur þýsku flokkanna runninn út

Atli Ísleifsson skrifar
Angela Merkel Þýskalandskanslari í nótt.
Angela Merkel Þýskalandskanslari í nótt. Vísir/afp
Enn bólar ekkert á nýrri ríkisstjórn í Þýskalandi en frestur Kristilegra demókrata (CDU, CSU), Frjálslynda flokksins (FDP) og Græningja til að ná samkomulagi og hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður rann út í nótt. Flokkarnir hafa ekki náð saman í viðræðum sínum um meðal annars innflytjendamál og efnahagsmál.

Fulltrúar flokkanna luku fundi sínum klukkan fjögur í nótt og sögðust ætla taka sér nokkurra klukkustunda hlé og halda svo viðræðum áfram í dag.

Kosningar fóru fram í Þýskalandi þann 24. september síðastliðinn og virðist eina mögulega stjórnin sem hægt er að mynda vera stjórn þessara flokka. Sigli viðræður í strand þykir líklegt að boða þurfi til nýrra kosninga.

Peter Tauber, framkvæmdastjóri CDU, flokks Angelu Merkel kanslara, segir flokksmenn enn telja það vera rétt að leggja alla orku í myndun þessarar stjórnar. Þó sé ljóst að viðræðurnar hafi verið erfiðar.

Wolfgang Kubicki, varaformaður FDP, sagðist vera mjög gramur að viðræður síðustu fjögurra vikna hafi ekki skilað árangri. Græninginn Michael Kellner segir flokkanna enn eiga langt í land. „Ekkert hefur verið samþykkt, engu hefur verið hafnað.“

Svokölluð „Jamaíkustjórn“ hefur aldrei áður starfað saman á landsvísu í Þýskalandi. Hefð er fyrir því í Þýskalandi að nefna stjórnir eftir löndum. Eru þá einkennislitir viðkomandi flokka heimfærðir upp á fánaliti einhvers lands. Einkennislitur Kristilegra demókrata er svartur, Græningja grænn og Frjálslynda flokksins gulur.

Ákveðið var að reyna myndun slíkrar stjórnar eftir að stjórnarflokkarnir Kristilegir demókratar (CDU og CSU) og Jafnaðarmenn (SPD) misstu mikið fylgi í konsningunum í september og hægri popúlistaflokkurinn AfD náði í fyrsta sinn mönnum á þýska þingið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×