Erlent

Neyðarástandi í Frakklandi loks aflýst

Atli Ísleifsson skrifar
Neyðarástandi var framlengt sex sinnum frá árinu 2015.
Neyðarástandi var framlengt sex sinnum frá árinu 2015. Vísir/AFP
Um tveimur árum eftir hryðjuverkaárásirnar í París hafa stjórnvöld í Frakklandi loks aflýst neyðarástandi í landinu. 130 manns létu lífið og um 350 særðust í árásunum 2015.

Nú þegar búið er að aflýsa neyðarástandi í landinu taka ný hryðjuverkalög gildi sem veita yfirvöldum auknar heimildir til húsleitar og að loka moskum og öðrum bænahúsum þar sem sannað þykir að verið sé að flytja hatursáróður.

„Margir óttast að við munum nú sofna á verðinum, en í raun og veru er um að ræða hið gagnsræða,“ segir forsætisráðherrann Édouard Philippe í samtali við Reuters.

Búið er að framlengja neyðarástandið sem sett var á sínum tíma sex sinnum.

Franskir íhaldsmenn hafa varað við að hin nýju lög gangi ekki nægilega langt og aðrir hafa varað við að lögregla kunni misnota heimildir sínar.

Frönsk stjórnvöld fullyrða að heimildir yfirvalda, sem fengust eftir að neyðarástandi var lýst yfir, hafi skilað því að tekist hafi verið að koma í veg fyrir þrjátíu árásir í landinu.

Rúmlega áttatíu prósent Frakka styðja hin nýju hryðjuverkalög samkvæmt skoðanakönnun sem gerð var í síðasta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×