

Spænska ríkisstjórnin ætlar að beita 155. gr. stjórnarskrárinnar og svipta Katalóníu sjálfsstjórn í dag.
Katalónía mun að öllu óbreyttu missa öll sjálfsstjórnarréttindi sín eða hluta þeirra. Til stendur að ferlið hefjist formlega á morgun. Ekki er ljóst hvað mun breytast í stjórnarfari Katalóníu.
Carles Puigdemont, leiðtogi Katalóníu, heldur kröfu sinni um viðræður við stjórnvöld í Madríd um sjálfstæði héraðsins til streitu.
Óvissuástand ríkir í Katalóníu eftir að spænska ríkisstjórnin tilkynnti í morgun að héraðið yrði svipt sjálfsstjórn. Þetta segir Óttar M. Norðfjörð, íslenskur rithöfundur sem búsettur er í Barcelona. Hann segir deilurnar um sjálfstæði hafa rekið fleyg í samband fjölskyldna í Katalóníu og hópar ungmenna sláist með katalónska og spænska fána á bakinu.