Íslenski boltinn

Pétur Pétursson ráðinn þjálfari Vals

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pétur Pétursson með barnabarni sínu.
Pétur Pétursson með barnabarni sínu. vísir/ernir
Pétur Pétursson, fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmaður í fótbolta, hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs Vals í Pepsi-deildinni í fótbolta en hann var kynntur til leiks á blaðamannafundi félagsins í dag. Pétur skrifaði undir þriggja ára samning við Val.

Pétur tekur við starfinu af Úlfi Blandon sem entist í eitt ár á Hlíðarenda en undir hans stjórn endaði Valsliðið í þriðja sæti með 37 stig. Það var aldrei í alvöru titilbaráttu eftir slaka byrjun.

Á síðustu leiktíð var Pétur aðstoðarþjálfari Jóhannesar Karls Guðjónssonar hjá HK í Inkasso-deildinni en þar áður var hann aðalþjálfari Fram í sömu deild sumarið 2015. Hann hefur aldrei áður þjálfað kvennalið.

Pétur, sem er einn af bestu leikmönnum Íslands frá upphafi, hóf þjálfaraferil sinn hjá Tindastóli árið 1993 en hann hefur einnig þjálfað Keflavík, Víking, KR og Fram.

Hann gerði KR að Íslandsmeistara árið 2000 og var svo aðstoðarþjálfari Ólafs Jóhannessonar hjá íslenska landsliðinu frá 2009-2010.

Mikið hefur verið lagt í Valsliðið undanfarin tímabil til að vinna aftur Íslandsmeistaratitilinn sem liðið hefur ekki hampað síðan 2010 þegar að það varð Íslandsmeistari fimmta árið í röð.

Á blaðamannafundinum í dag var einnig greint frá því að þriggja manna teymi, skipað Rakel Logadóttur, Margréti Magnúsdóttur og Þórði Jenssyni, muni þjálfa 2. og 3. flokk kvenna hjá Val.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×