Innlent

Framsókn úti á höfuðborgarsvæðinu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Lilja Dögg Alfreðsdóttir missir sæti sitt ef marka má könnunina.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir missir sæti sitt ef marka má könnunina. Vísir/Ernir
Enginn frambjóðandi Framsóknarflokksins í höfuðborgarsvæðiskjördæmunum þremur nær inn á þing og Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður flokksins, missir sæti sitt ef marka má skoðanakönnun fréttastofu 365.

Samkvæmt könnuninni er Lilja allnokkru frá því að halda sæti sínu á þingi. Hún segir þó flokkinn eiga mikið inni. „Ég er í baráttuhug og vongóð. Á kjördag fyrir ári vorum við að mælast með fjögur prósent í Reykjavík suður en við enduðum með yfir sjö prósent og ég var inni. Nú er maður bara á fullu og heldur áfram að kynna málefnin,“ segir Lilja.

Benedikt Jóhannesson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi.
Þó verður að setja þann fyrirvara við útreikninga Fréttablaðsins að könnunin skiptir Reykjavíkurkjördæmunum ekki í tvennt og er því ekki útilokað að fylgið sé mismunandi á milli kjördæma. Jafnframt er úrtakið í landsbyggðarkjördæmunum minna en á höfuðborgarsvæðinu og vikmörkin því hærri. Þá getur minnsta sveifla breytt því hverjir fá jöfnunarsæti.

Öfugt við Framsóknarflokkinn stefnir í að Viðreisn nái ekki inn mönnum í landsbyggðarkjördæmunum þremur. Myndu Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður, og Jóna Sólveig Elínardóttir varaformaður því missa sæti sín. Hins vegar myndu allir þingmenn flokksins í höfuðborgarsvæðiskjördæmunum halda sætum sínum samkvæmt könnuninni.

Athygli vekur að þótt Flokkur fólksins mælist úti á landsvísu, undir fimm prósenta þröskuldinum og því án möguleika á jöfnunarþingmanni, vantar bara örfá atkvæði til þess að oddviti hans í Suðurkjördæmi, Karl Gauti Hjaltason, nái inn. Samkvæmt útreikningum Fréttablaðsins sem byggjast á könnuninni vantar einungis 23 atkvæði þar upp á og er því sannarlega mjótt á munum.

Svo gæti einnig farið að Rúnar Gíslason, frambjóðandi Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi, setji Íslandsmet og verði yngsti kjörni þingmaður lýðveldissögunnar. Rúnar er fæddur árið 1996 en hann mælist inni með einungis einu atkvæði meira en Teitur Björn Einarsson, frambjóðandi Sjálfstæðis­flokksins. 


Tengdar fréttir

Könnun fréttastofu: Sjálfstæðisflokkurinn með afgerandi forystu

Viðreisn mælist með meira fylgi en Framsóknarflokkurinn í nýrri könnun. Samfylkingin mælist þriðji stærsti flokkurinn og myndi þrefalda þingmannatöluna ef kosið væri nú. Hvorki Flokkur fólksins né Björt framtíð næðu manni á þing.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×