Erlent

Lýsti yfir hættuástandi í Bandaríkjunum vegna ofneyslu lyfseðilsskyldra lyfja

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Trump minntist einnig eldri bróður síns, Freds, á blaðamannafundinum í Hvíta húsinu í dag. Fred Trump glímdi við áfengisfíkn og lést árið 1999, 43 ára aldri.
Trump minntist einnig eldri bróður síns, Freds, á blaðamannafundinum í Hvíta húsinu í dag. Fred Trump glímdi við áfengisfíkn og lést árið 1999, 43 ára aldri. Vísir/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti því yfir á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í dag að faraldur útbreiddrar fíknar í sterk lyfseðilsskyld lyf væri þjóðarskömm Bandaríkjamanna. Forsetinn lýsti enn fremur yfir hættuástandi. BBC greinir frá.



Trump kynnti einnig nýja áætlun sína, sem sporna á við fíkn í svokölluð ópíöt, á fundinum en ópíöt draga nú yfir 140 Bandaríkjamenn til dauða á degi hverjum. Til ópíata teljast lyf á borð við morfín, heróín, kódín og fentanýl en þau fást gegn framvísun lyfseðils víða í Bandaríkjunum. Lyfin hafa öflug verkjastillandi áhrif, valda sljóleika og sælutilfinningu og eru mjög ávanabindandi.

Trump sagði Bandaríkin eiga met í neyslu ópíata í heiminum, en ríkisborgarar landsins neyta ópíata í meiri mæli en nokkur önnur þjóð.

Þá skrifaði Trump undir viljayfirlýsingu sem mælti til þess að heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna lýsti yfir hættuástandi. Allar alríkisstofnanir væru einnig skyldaðar til að sporna við fækkun dauðsfalla tengdum ofneyslu á ópíötum.

Talaði um fíkn bróður síns heitins

Trump minntist einnig eldri bróður síns, Freds, á blaðamannafundinum í Hvíta húsinu í dag. Fred Trump glímdi við áfengisfíkn og lést 43 ára að aldri.

„Ég átti bróður, Fred. Frábær náungi, myndarlegasti náungi. Besti persónuleikinn, miklu betri en minn. En hann átti við vandamál að stríða, hann átti í vandræðum með áfengi.“

Trump sagði bróður sinn ætíð hafa ráðið honum gegn því að neyta áfengis og tóbaks, en sjálfur segist Trump aldrei hafa prófað slík efni.

Tíðni dauðsfalla vegna ofneyslu á ópíötum og öðrum morfínskyldum efnum hefur fjórfaldast í Bandaríkjunum síðan árið 1999. Árið 2015 létust 33 þúsund manns vegna ofneyslu á efnunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×