Innlent

Félagsvísindastofnun: Fjórði hver kýs Sjálfstæðisflokkinn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá landsfundi Sjálfstæðismanna.
Frá landsfundi Sjálfstæðismanna. Vísir/Valli
Næstum fjórði hver kjósandi hyggst ljá Sjálfstæðisflokknum atkvæði sitt ef marka má nýja könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Samkvæmt henni mælist VG með 20,2% og 14 þingmenn en í könnun stofnunarinnar í síðustu viku mældist flokkurinn með 23,2% og 16 menn inni.

Samfylkingin er með rúm 15 prósent, Píratar tæplega 10 prósent og Miðflokkurinn rúmlega 9. Viðreisn og Framsóknarflokkur njóta svipaðrar hylli, hvor flokkur um sig með um 8 prósent.

Þessi 7 flokkar næðu því mönnum á þing. Flokkur fólksins er þó ekki langt undan og mælist hann með rúmlega 4 prósent. Björt framtíð á þó lengra í land, stuðningurinn við þennan fyrrum stjórnarflokk er um 1 prósent.

Sjá einnig: Könnun fréttastofu: Sjálfstæðisflokkurinn með afgerandi forystu

Þessi könnun Félagsvísindastofnunar helst í meginatriðum í hendur við umfangsmikla könnun fréttastofu 365, sem greint var frá í gær. Þar fékk VG þó rétt rúm 19 prósent, einu prósentustigi minna en í könnun Félagsvísindastofnunar. Að sama skapi mældist Framsókn aðeins minni hjá 365, fékk þar 6 prósent en fær 8 prósent í þessari nýjustu könnun, sem birtist degi fyrir kosningar.

Úrtak könnunar Félagsvísindastofnunar voru 3.900 kjósendur en 1.956 tóku afstöðu til könnunarinnar. Af þeim sögðust 73 ætla að skila auðu, 25 ætluðu ekki að kjósa, 48 vildu ekki svra og 182 sögðust ekki vita hvað þeir ætla að kjósa.


Tengdar fréttir

Könnun fréttastofu: Sjálfstæðisflokkurinn með afgerandi forystu

Viðreisn mælist með meira fylgi en Framsóknarflokkurinn í nýrri könnun. Samfylkingin mælist þriðji stærsti flokkurinn og myndi þrefalda þingmannatöluna ef kosið væri nú. Hvorki Flokkur fólksins né Björt framtíð næðu manni á þing.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×