Erlent

Kallar eftir friðsamlegri andstöðu í Katalóníu

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Barcelona.
Frá Barcelona. Vísir/AFP
Carles Puigdemont, sem var vikið úr sæti forseta héraðsstjórnar Katalóníu í gær af yfirvöldum í Madrid, kallar eftir því að íbúar héraðsins standi gegn því að stjórnvöld Spánar taki yfir stjórn héraðsins. Hann hét því að berjast áfram fyrir „frjálsu landi“ og bað íbúa um að sýna „lýðræðislega andstöðu“.

Yfirvöld í Madrid hafa nú tekið yfir stjórn héraðsins og er aðstoðarforsætisráðherra Spánar starfandi forseti Katalóníu. Yfirmenn lögreglu héraðsins hafa verið reknir og er lögreglan nú undir stjórn innanríkisráðuneytisins.

Þúsundir íbúa gengu fagnandi um götur Barcelona og öðrum borgum héraðsins eftir sjálfstæðisyfirlýsingu þings Katalóníu í gær.

Sjá einnig: Ætla að ákæra Puigdemont fyrir uppreisn



Katalónía hefur verið sjálfstjórnarsvæði frá árinu 1979 þegar Spánverjar sneru sér aftur að lýðræði eftir dauða einræðisherrans Farancisco Franco.

Sjálfstæðisviðleitni Katalóníu hefur ekki fengið hljómgrunn fyrir utan héraðið þar sem leiðtogar vestrænna ríkja hafa lýst yfir stuðningi við Madrid. Samkvæmt frétt Guardian hefur mestur stuðningur við sjálfstæði Katalóníu komið frá Skotlandi.



„Við skiljum og virðum stöðu yfirvalda Katalóníu. Spánverjar hafa rétt til þess að vera andsnúnir sjálfstæði Katalóníu, en Katalónar eiga rétt á að ákveða eigin framtíð. Það að þvinga héraðið undir beina stjórn Madrid getur ekki verið lausnin og það ætti að vekja upp áhyggjur meðal allra lýðræðissinna,“ sagði Fiona Hyslop, utanríkisráðherra Skotlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×