„Lögin eru nú hugsuð þannig að þau eru til þess að verja þann sem er að kjósa fyrir áhrifum, og mér finnst það langsótt að 12 ára gömul dóttir mín muni hafa það sterk áhrif á mig sem stjórnmálamann og frambjóðanda að ég fari að kjósa Framsóknarflokkinn,“ segir Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við Vísi.
Hann kaus á Akureyri nú fyrir hádegi í dag og tók dóttur sína með inn í kjörklefann. Myndband af atvikinu má sjá í spilaranum hér að neðan á mínútu 1:46.
Umrætt atvik hefur vakið mikla athygli en í 81. grein laga um kosningar segir eftirfarandi: „Þá er kjósandi hefur tekið við kjörseðlinum fer kjósandi með hann inn í kjörklefann, þar sem kjósandinn má einn vera, og að borði því er þar stendur.“ Því má segja að með þessu hafi Logi brotið kosningalög.
„Örugglega var þetta klaufalegt hjá mér. Það gerði enginn athugasemd við þetta og ég spurði áður, en ég er ekkert að afsaka það,“ segir Logi um málið. „Ég geri þetta bara ekki næst og dreg bara mikinn lærdóm af þessu, lofa að hegða mér betur í framtíðinni hvað þetta varðar.“
Nú fái enginn að fara inn í kjörklefa með barn
Helga Eymundsdóttir, formaður kjörstjórnar á Akureyri, segir í samtali við Vísi að ekki hafi þótt ástæða til að banna fólki sérstaklega að taka börn sín með inn í kjörklefa.
„Þetta er nú bara svona prinsippmál, við höfum ekkert verið að ýta við fólki þegar það kemur með börnin sín. Fólk er að koma með börn á öllum aldri og jafnvel kornabörn á handleggnum. Okkur hefur ekki fundist ástæða til að segja þeim að þau megi ekki kjósa ef þau geta ekki látið börnin frá sér,“ segir Helga sem segir kjörstjórnina ekki fram úr hófi fasta í hefðum og reglum hvað þetta varðar.
„Við höfum dregið línuna þannig að það fari ekki fólk inn sem hefur komið á kosningaaldur.“
Helga segir nú verða breytingu þar á. Umfjöllun fjölmiðla í dag hafi orðið til þess að nú sé reglunum framfylgt til hins ítrasta og það sem eftir er dags fái enginn að fara inn í kjörklefana með barn.