Erlent

Hefur tekið fyrsta skrefið til að svipta Katalóníu sjálfstjórn

Atli Ísleifsson skrifar
Mariano Rajoy er forsætisráðherra Spánar.
Mariano Rajoy er forsætisráðherra Spánar. Vísir/AFP
Forsætisráðherra Spánar hefur tilkynnt katalónsku héraðsstjórninni að Spánarstjórn gæti svipt héraðinu sjálfstjórn sinni og að héraðinu yrði þá stýrt beint frá höfuðborginni Madríd.

Forsætisráðherrann Mariano Rajoy segir að hann hafi beðið Carles Puigdemont, forseta héraðsstjórnar Katalóníu, um að tala skýrar og staðfesta hvort hann hafi lýst yfir sjálfstæði Katalóníu eður ei. 

Tilkynning Spánarstjórnar er fyrsta skrefið samkvæmt stjórnarskrá í þá átt að svipta Katalóníu sjálfstjórn sinni. BBC greinir frá þessu.

Puigdemont skrifaði undir sjálfstæðisyfirlýsingu Katalóníu í gær, en frestaði jafnframt framkvæmdinni til að veita svigrúm til viðræðna. Rajoy sakaði í morgun Puigdemont um að hafa vísvitandi ruglað fólk í ríminu með yfirlýsingunni í gær.

Rajoy ræddi við fjölmiðla í morgun að loknum neyðarfundi hjá ríkisstjórninni þar sem rætt var hver næstu skref spænskra stjórnvalda verði.

Mikil óvissa hefur ríkt á Spáni eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna í Katalóníu þann 1. október síðastliðinn sem hefur verið dæmd ógild af stjórnlagadómstól Spánar.


Tengdar fréttir

Rajoy biður Puigdemont að tala skýrar

Forsætisráðherra Spánar hefur beðið forseta héraðsstjórnar Katalóníu um að staðfesta hvort hann hafi lýst yfir sjálfstæði Katalóníu eður ei.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×