Erlent

Fundu sög á hafsbotni sem kann að tengjast máli Madsen

Atli Ísleifsson skrifar
Peter Madsen er í gæsluvarðhaldi vegna gruns um að hafa banað Wall.
Peter Madsen er í gæsluvarðhaldi vegna gruns um að hafa banað Wall. Vísir/AFP

Lögregla í Kaupmannahöfn hefur fundið sög á hafsbotni í Kögeflóa á stað sem talið er að kafbátur Peter Madsen hafi siglt um í ágúst. Kafarar fundu sögina í gær en leit stendur enn yfir á svæðinu vegna morðsins á sænsku blaðakonunni Kim Wall. SVT greinir frá þessu.

Madsen er í gæsluvarðhaldi vegna gruns um að hafa banað Wall. Handleggja Wall er enn leitað, en hlutar af sundurlimuðu líki hennar – búkur, höfuð og fótleggir – hafa þegar fundist.

Jens Möller hjá Kaupmannahafnarlögreglunni segir í yfirlýsingu að sérfræðingar lögreglu muni nú kanna hvort að sögin sem fannst kunni að tengjast málinu.

Möller segir jafnframt að leit að handleggjum Wall standi enn yfir. Hann vill þó ekki upplýsa nákvæmlega hvar kafarar eru nú að störfum.

Lögreglan fann á föstudaginn líkamshluta og föt í Kögeflóa sem staðfest er að eru af Wall. Fundurinn er talinn marka tímamót í rannsókn málsins. Fötin og ýmsar eigur Wall fundust í poka á hafsbotni, sem og hnífur og ýmsir þyngri hlutir sem ætlað var að halda pokanum á hafsbotni.

Eftir fundinn í síðustu viku hefur Madsen neitað að ræða við lögreglu. Hann hefur áður fullyrt að Wall hafi látið lífið um borð í kafbátnum eftir að hafa fengið um 70 kílóa þunga lúgu í höfuðið. Sagðist hann hafa varpað líkinu fyrir borð, en hann neitar þó að hafa sundurlimað líkið.

Möller sagði um helgina að rannsókn á höfði Wall sýndi fram á að ekki væru nein merki um brot á höfuðkúpunni.


Tengdar fréttir

Fundu höfuð Kim Wall

Fyrstu vísbendingar benda til að lýsing Peters Madsen á dauða blaðakonunnar eigi ekki við rök að styðjast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×