Kvikmyndin Kúrekinn bar sigur úr býtum í aðalverðlaunaflokki RIFF, Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík, árið 2017 og hlýtur kvikmyndin Gullna lundann.
Lokahóf RIFF fór fram í Þjóðleikhúskjallaranum í kvöld. Hátíðinni var þar formlega slitið og verðlaun veitt í fimm keppnisflokknum.
Í flokknum Vitranir voru þrettán myndir tilnefndar. Þar hreppti myndin Kúrekinn / Rider (USA) í leikstjórn Chloé Zhao aðalverðlaun hátíðarinnar, Gullna lundann.
Eftir að hafa séð myndina hafði Werner Herzog, heiðursgestur RIFF, þetta að segja:
„Einmitt þegar maður fer að halda að kvikmyndagerð sé að staðna kemur mynd á borð við þessa eins og þruma úr heiðskýru lofti. Það er mjög hvetjandi.“
Þá hlaut myndin Hold On í leikstjórn Charlotte Scott-Wilson verðlaunin Gullna eggið, sem kemur í hlut bestu myndarinnar á Reykjavík Talent Lab.
Í flokknum Önnur framtíð voru ellefu myndir sem eiga það sameignlegt að fjalla um mannréttinda- og umhverfismál. Þar var myndin Hrifsið og flýið/Grab and Run í leikstjórn Roser Corella valin sigurmyndin.
Myndin Atelier í leikstjórn Elsu Maríu Jakobsdóttur hlaut verðlaun sem besta íslenska stuttmyndin og myndin Copa Loca í leikstjórn Christos Massalas var valin besta erlenda stuttmyndin.
Lífið