Erlent

Finnsku forsetahjónin eiga von á barni

Atli Ísleifsson skrifar
Finnsku forsetahjónin Sauli Niinistö og Jenni Haukio.
Finnsku forsetahjónin Sauli Niinistö og Jenni Haukio. Vísir/AFP
Jenni Haukio, skáld og eiginkona Sauli Niinistö Finnlandsforseta, er með barni og eiga forsetahjónin von á erfingjanum í febrúar.

Skrifstofa finnska forsetaembættisins greindi frá þessu í morgun. „Ef allt gengur að óskum fjölgar í fjölskyldu okkar í febrúar 2018. Við höfum beðið í mörg ár og vonast eftir barni,“ segja forsetahjónin í yfirlýsingu.

Þau Haukio og Niinistö segjast hafa í mörg ár átt í vandræðum með barneignir. „Gleðifréttir,“ segir forsetinn á Facebook-síðu sinni þar sem hann deilir yfirlýsingunni.

Á frétt YLE segir að þetta sé í fyrsta sinn sem sitjandi forseti Finnlands eigi von á barni. Þetta verður fyrsta barn Haukio, en þriðja barn Niinistö.

Forsetakosningar fara fram í Finnlandi á næsta ári og sækist Niinistö eftir endurkjöri. Fyrri umferð kosninganna fara fram í lok janúar. Komi til síðari umferðar fer hún fram í febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×