Maðurinn var leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur upp úr klukkan þrjú í dag. Krafan er sett fram á grundvelli rannsóknarhagsmuna en það að ekki sé farið fram á lengra gæsluvarðhald en viku bendir til þess að rannsókn lögreglu sé langt komin og að atburðarásin liggi nokkuð skýr fyrir.
Tveir menn voru handteknir í risíbúð við Hagamel í gærkvöldi. Konan bjó í íbúðinni og annar mannanna einnig. Hann er íslenskur og verður sleppt úr haldi síðar í dag.

Talið er að einhvers konar vopni eða áhaldi hafi verið beitt við árásina sem leiddi til dauða hennar. Lögregla hefur ekki viljað gefa upp hvers kyns vopnið er.
Vísir greindi frá því fyrr í dag, og hafði eftir sjónarvottum sem voru fjölmargir við Hagamel í gærkvöldi, að maðurinn sem grunaður er í málinu hafi látið öllum illum látum þegar hann var handtekinn. Hafi hann verið leiddur út af lögreglu alblóðugur og í nærfötunum einum klæða. Þurfti lögregla að beita piparúða til að hemja hann.