Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Víkingur R. - ÍA 0-0 | Markalaust í Víkinni

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
Róbert Örn Óskarsson hélt marki sínu hreinu í dag.
Róbert Örn Óskarsson hélt marki sínu hreinu í dag. vísir/eyþór
Markalaust jafntefli varð niðurstaðan í bragðdaufum leik Víkings í Reykjavík og ÍA í 21. og næst síðustu umferð Pepsi-deildar karla. Með stiginu tryggði Víkingur áframhaldandi veru sína í deild þeirra bestu. Skagamenn voru hins vegar fallnir fyrir leikinn og spila því í Inkasso deildinni næsta sumar.

Fyrri hálfleikurinn byrjaði vægast sagt rólega og gerðist fátt markvert fyrstu 20 mínútur leiksins. Um miðbik hálfleiksins færðist hins vegar smá fjör í leikana og fengu bæði lið færi til að skora fyrsta mark leiksins. Liðunum gekk hins vegar illa að nýta færin sem þau fengu og var því staðan 0-0 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Ótrúlegt en satt þá var seinni hálfleikur ennþá tíðindaminni. Bæði lið skoruðu mörk sem dæmd voru af og skallaði Viktor Bjarki í slá í lok leiks. Þar með eru helstu atvik seinni hálfleiks upptalin.

Skagamenn skoruðu beint úr horni en dómarinn flautaði réttilega á brot, ýtt var við Róbert í marki Víkinga. Meiri vafi var varðandi mark Víkings en Geoffrey Castillon skoraði laglegt mark sem dæmt var af vegna rangstöðu. Spurninig hvort að sóknarmaðurinn hefði þar átt að njóta vafans.

Það var fátt um fína drætti í Víkinni í dag enda að litlu að keppa fyrir liðin.

Af hverju varð jafntefli?

Fyrst og fremst má segja að slæmur sóknarleikur liðanna sé aðal ástæðan fyrir markarlausu jafntefli. Liðunum gekk illa að skapa opin færi og nýttu þau fáu færi sem þau fengu ekki nægilega vel. Þá reyndi lítið á varnarlínur liðanna.

Þessir stóðu upp úr:

Róbert Örn stóð fyrir sínu í marki heimamanna. Í þau skipti sem reyndi á hann var hann öryggið uppmálað, varði vel nokkrum sinnum og kýldi blautann boltann í burtu þegar þess var þörf.

Þá var Geoffrey Castillon á tíðum öflugur líkt og svo oft áður í sumar. Hélt boltanum vel og skoraði flott mark sem var var dæmt af vegna rangstöðu. Einnig var Halldór Smári, sem skrifaði undir nýjan samning við Víking í vikunni, flottur í miðju varnarinnar.

Í liði gestanna ber helst að nefna Þórð Þorsteinn Þórðarsson, eða ÞÞÞ eins og hann er stundum kallaður. Átti hann þátt í flestum sóknum Skagamanna sem einhver hætta varð úr og átti auk þess nokkur hættuleg skot. Sóknamenirnir ungu Stefán Þórður Teitsson og Steinar Þorsteinsson voru einnig líflegir á köflum.

Hvað gekk illa?

Það má segja að sóknarleikur liðanna í heild sinni hafi gengið illa, eins og lokatölur leiksins gefa til kynna. Það litu vissulega nokkur færi dagsins ljós en þau voru ákaflega fá og langt á milli þeirra.

Báðum liðum gekk illa að spila sín á milli og spilaði blautur og þungur Víkingsvöllur sinn þátt í því.  

Hvað gerist næst?

Víkingar heimsækja íslandsmeistara Vals á Hlíðarenda næstkomandi laugardag í lokaumferð Pepsi-deildarinnar í ár.

ÍA fá á sama tíma nágranna sína af vesturlandinu, Víking Ólafsvík, sem eru í bullandi fallbaráttu, í heimsókn.

Maður leiksins: Róbert Örn Óskarsson, Víking R.

Einkunnir má sjá með því að smella á flipann Liðin hér fyrir ofan

Logi: Hefði viljað sjá meiri stöðugleika í sumar

„Það var dauft yfirbragðið yfir þessu og leikurinn bar vott um að það væri ekki mikið um að spila fyrir liðin, en við vildum vinna leikinn og afmá þann stimpil sem hefur verið á okkur að um leið og við siglum lignan sjó þá slökum við á, “ sagði Logi Ólafsson, þjálfari Víkings eftir markalaust jafntefli sinna minna við ÍA dag.

Logi sá meira jákvætt en neikvætt við leik sinna manna í dag.

„Það sem er jákvætt er að við héldum markinu hreinu, Róbert varði nokkrum sinnum vel og svo hefðum við getað stolið þessu í lokin.“

Logi var spurður hvort hann væri sáttur með tímabilið.

„Að mestu leyti. Við bíðum þó býsna lengi með það að ná stigum eftir að við unnum Breiðablik og komumst í 22 stig. Ég hefði viljað sjá meiri stöðugleika í sumar, en við stefnum á að laga það. “

Logi var að endingu spurður hvort hann hyggist halda áfram með Víkingsliðið næsta sumar.

„Já, ég er með samning áfram og það stendur ekki til annars. “

Jón Þór: Þetta hefur ekki fallið með okkur

„Ég er svekktur að hafa ekki náð þessum þrem stigum og þessum sigri sem liðið virkilega ætlaði sér. Við fáum urmul af færum og í raun með ólíkindum að við höfum farið markalausir í gegnum þennan leik, “ sagði Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, eftir jafntefli sinna manna við Víking R. í dag.

Skagamenn eru taplausir í síðustu 4 leikjum og er Jón Þór sáttur með stígandann í leik sinna manna.

„Við hefðum að sjálfsögðu viljað hafa fleiri sigra í þessum fjóru leikjum og mér finnst við hafa verðskuldað það, eins og hérna í dag. Heilt yfir erum við miklu betri aðilinn og fáum fleiri færi en Víkingur í dag. Þetta hefur ekki fallið með okkur en taktur liðsins hefur verið uppá við.“

Jón Þór var spurður hvort einhverjar viðræður hafi átt sér stað um að hann haldi áfram með liðið.

„Nei, í raun og veru ekki. Engar formlegar viðræður en ég á von á því að þær fari fram á næstu dögum eða vikum,“ sagði Jón Þór.

Að endingu var Jón spurður hvort hann vilji halda áfram með liðið.

„Já, það liggur alveg fyrir.“

Róbert Örn: Vonbrigðin meiri í ár en í fyrra

„Mér er bara létt, að hafa haldið í stigið. Ég sagði það við strákana fyrir leikinn að þetta væri tricky leikur. Ef það er eitthvað lið sem kemur tryllt í leik eftir svona áfall eru það Skagamenn,“ sagði Róbert Örn Óskarsson, markmaður Víkings og maður leiksins, eftir leikinn í dag.

Róbert var spurður hvort hann væri sáttur með tímabilið.

„Ég er það ekki. Þrátt fyrir að við náum sama stigafjölda og í fyrra eru vonbrigðin meiri í ár heldur en í fyrra. Þegar maður lítur tilbaka eru nokkrir grátlegir leikir sem við töpuðum. Ég ætla ekki einu sinni að gera mér það að taka þá saman,“ sagði markvörðurinn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira