Innlent

Kjósendur halda sig frekar innan hægri og vinstri blokkanna en flakka síður á milli

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Viðreisn myndar einhvers konar brú milli vinstri og hægri blokkanna í íslenskum stjórnmálum í huga kjósenda ef marka má frumniðurstöður úr Íslensku kosningarannsókninni.
Viðreisn myndar einhvers konar brú milli vinstri og hægri blokkanna í íslenskum stjórnmálum í huga kjósenda ef marka má frumniðurstöður úr Íslensku kosningarannsókninni. vísir
Frumniðurstöður úr Íslensku kosningarannsókninni sem gerð var í fyrra benda til þess að þegar íslenskir kjósendur gera upp hug sinn fyrir kosningar þá virðast þeir fyrst og fremst velja á milli flokka innan hægri blokkarinnar eða vinstri blokkarinnar í íslenskum stjórnmálum frekar en að flakka á milli blokka.

Þetta segir Agnar Freyr Helgason, doktor í stjórnmálafræði og einn rannsakenda í Íslensku kosningarannsókninni, í samtali við Vísi en hann birti fyrir helgi grein á bloggsíðu sinni um vinstri og hægri blokkirnar undir yfirskriftinni „Hverjir kepptu um kjósendur 2016?“

Agnar bendir á að niðurstöðurnar séu ekki birtar niðurstöður heldur frumniðurstöður. Þá sé þetta ekki algilt heldur sýni ákveðna tilhneigingu hjá kjósendum til að fara síður á milli hægri og vinstri blokkanna.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi formaður Framsóknarflokksins, og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins við undirritun stjórnarsáttmála árið 2013. Þessir flokkar virðast mynda hægri blokk í íslenskum stjórnmálum í huga kjósenda. Vísir/GVA
Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur saman í hægri blokkinni

„Þetta eru gögn sem safnað var fyrir kosningarnar í fyrra og snúast í rauninni um hvaða flokka einstaklingar geti hugsað sér að kjósa. Í færslunni er ég að skoða sérstaklega einstaklinga sem hafa ekki gert upp hug sinn og hvaða flokka þeir eru að velja á milli. Það sem kemur skýrt fram í gögnunum er að allavega á meðal kjósenda er nokkuð skýr greinarmunur á tveimur blokkum. Það eru þá annars vegar kjósendur sem geta hugsað sér að kjósa Framsóknarflokkinn eða Sjálfstæðisflokkinn og hins vegar kjósendur sem geta hugsað sér að kjósa einn af fjórum flokkum, það er þá Samfylkinguna, Vinstri græn, Pírata eða Bjarta framtíð,“ segir Agnar.

Þriðji stóri þátturinn sem niðurstöðurnar benda svo til er að Viðreisn myndar einhvers konar brú á milli blokkanna.

„Það eru þá kjósendur sem geta hugsað sér að kjósa Viðreisn en eru þá líka að velja á milli annars vegar Sjálfstæðisflokksins og hins vegar Bjartrar framtíðar, Samfylkingar og Pírata.“

„Það er oft talað um að það sé stutt á milli ákveðins hóps í Sjálfstæðisflokknum og Vinstri grænum en það virðist ekki vera að koma fram í þessum gögnum,“ segir Agnar en hér eru þau Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðsflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vintri grænna, í kosningasjónvarpi Stöðvar 2 í fyrra.visir/anton brink
Niðurstöðurnar komi að einhverju leyti á óvart

Agnar segir að þessi spurning hafi verið ný í kosningarannsókninni í fyrra. Því séu ekki til samanburðargögn úr fyrri kosningarannsóknum.

En er þetta eitthvað sem kemur á óvart eða er þekkt í fræðunum að kjósendur séu annað hvort til vinstri eða hægri?

„Þetta hefur ekki verið mikið rannsakað hér á landi en við þekkjum auðvitað kerfi eins og í Bandaríkjunum þar sem að það er mjög sterkt að fólk er annað hvort Repúblikanar eða Demókratar. En ég myndi segja að þetta komi að einhverju leyti á óvart vegna þess að það er oft talað um að það sé stutt á milli ákveðins hóps í Sjálfstæðisflokknum og Vinstri grænum en það virðist ekki vera að koma fram í þessum gögnum. Sömuleiðis er það áhugavert að hve miklu leyti fylgi Bjartrar framtíðar er samofið fylgi Pírata, Vinstri grænna og Samfylkingar sem síðan kannski kollvarpast nú út af ríkisstjórnarþátttöku þeirra,“ segir Agnar.

Óttarr Proppé er formaður Bjartrar framtíðar. Ríkisstjórnarsamstarf flokksins með Sjálfstæðisflokknum og Viðreisn gæti orðið til þess að hann skilji sig meira frá vinstri kjarna íslenskra stjórnmála en áður.vísir/daníel þór
Ekki mikið breyst frá því í seinustu kosningum varðandi málefni og forystufólk

Aðspurður hvort að þessar niðurstöður geti gefið einhverjar vísbendingar um komandi kosningar segir Agnar:

„Almennt séð þá myndi ég reikna með að það sem ráði þessu séu málefnin sem flokkarnir leggja áherslu á og forystufólk flokkanna. Það hefur ekki tekið miklum breytingum á einu ári þó að auðvitað málefnið sem varð til þess að ríkisstjórnin sprakk sé víst til að hafa meiri áhrif nú en áður. Almennt séð myndi ég halda að þetta mynstur haldi áfram í þessum kosningum nema þá kannski helst með þeirri undantekningu að Björt framtíð muni örugglega skilja sig meira frá þessum vinstri kjarna.“

Þá bendir Agnar jafnframt á að Flokkur fólksins sé óskrifað blað. Hann hafi ekki verið vel þekktur í aðdraganda síðustu kosninga og því megi búast við að mynstrið breytist varðandi hann. Þó sé í raun enn of snemmt að segja til um hvaðan hann mun taka fylgi sitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×