Innlent

Þing kemur saman í síðasta sinn fyrir kosningar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá upphafi þings í haust þegar Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, flutti stefnuræðu sína.
Frá upphafi þings í haust þegar Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, flutti stefnuræðu sína. vísir/ernir
Þing kemur saman í síðasta skipti fyrir Alþingiskosningarnar sem verða þann 28. október næstkomandi. Hefst þingfundur klukkan 13:30.

Fimm flokkar á þingi, Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, Vinstri græn, Viðreisn og Björt framtíð standa að samkomulagi sem gert var á þingi í gær um framhald þingstarfa og þinglok.

Samfylkingin og Píratar styðja samkomulagið en óskuðu eftir því að vera ekki hluti af því. Ástæðan fyrir hjásetu þeirra er að ekki var fallist á tillögu um að á komandi kjörtímabili yrði unnt að breyta stjórnarskránni með öðrum hætti en kveðið er á um nú.

Rætt var við fulltrúa Samfylkingarinnar og Pírata um niðurstöðuna í kvöldfréttum í gær sem og forseta Alþingis.

Samkomulag náðist um fimm mál. Þar á meðal er frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á lögum um uppreist æru og breytingar á útlendingalögum þar sem sett verður inn bráðabirgðaákvæði um vegalaus börn sem tryggir til að mynda stúlkunum Hanyie og Mary öryggi hér á landi ásamt fleiri börnum hælisleitenda. 

Þá mun velferðarnefnd ræða tvö frumvörp er varða lögfestingu NPA – notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fatlaða og fjalla um yfirlýsingu sem formenn flokkanna hyggjast undirrita varðandi það hvaða vinna þurfi að eiga sér stað þannig að það mál fáist afgreitt fyrir áramót ef nýtt Alþingi kýs að gera það.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×