Erlent

Norður-Kóreu gert að loka fyrirtækjum sínum í Kína

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá vinabrúnni svokölluðu á landamærum Kína og Norður-Kóreu.
Frá vinabrúnni svokölluðu á landamærum Kína og Norður-Kóreu. Vísir/AFP
Yfirvöld Kína tilkynntu í dag að öllum fyrirtækjum Norður-Kóreu í landinu verði gert að loka starfsstöðvum sínum fyrir áramótin. Það er hluti af nýjum refsiaðgerðum gegn Norður-Kóreu vegna kjarnorkuvopna- og eldflaugaáætlana ríkisins. Fyrir nokkrum dögum tilkynnti Kína að dregið yrði úr sölu eldsneytis til Norður-Kóreu.

Þar að auki hefur Kína hætt kaupum á kolum og vefnaðarvörum frá nágrönnum sínum.

Aðgerðir Kína koma verulega niður á Norður-Kóreu, en Kína hefur um árabil verið helsta vina- og viðskiptaríki Norður-Kóreu. Talið er að um 90 prósent af tekjum Norður-Kóreu hafi komið til vegna viðskipta þeirra við Kína.

Bandaríkin og önnur ríki hafa að undanförnu beitt yfirvöld í Peking verulegum þrýstingi vegna Norður-Kóreu. Markmiðið er að fá einræðisríkið til að láta af vopnabrölti sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×