Erlent

Fjölskyldur ISIS-liða í haldi stjórnvalda

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Fjölskyldurnar gáfu sig fram við hersveitir Kúrda.
Fjölskyldurnar gáfu sig fram við hersveitir Kúrda. vísir/afp
Rúmlega 1.300 fjölskyldumeðlimir hryðjuverkamanna Íslamska ríkisins eru í haldi írakskra yfirvalda. Fjölskyldunum er haldið í búðum suður af borginni Mósúl. Frá þessu greindi Reuters í gær og hafði eftir heimildarmönnum innan írakska hersins og mannúðarsamtökum.

Fram kemur að Norska flótta­manna­ráðið, sem aðstoðar þau sem haldið er í búðunum, líti svo á að fjölskyldunum sé í raun haldið föngnum.

Um er að ræða konur og börn frá þrettán mismunandi ríkjum. Stærstur hluti fjölskyldnanna er frá Tyrklandi en þó ber nokkuð á fólki frá Tadsíkistan, Aserbaísjan og Rússlandi auk örfárra Frakka og Þjóðverja.

Þúsundir ferðuðust til Íraks og Sýrlands árin 2014 og 2015 til þess að slást í lið með ISIS eftir sigra þeirra á svæðinu.

Flestar fjölskyldurnar flúðu borgina Tal Afar þegar írakski herinn endurheimti borgina af ISIS-liðum í ágúst. Í frétt Reuters segir að þær hafi gefið sig fram við hersveitir Kúrda nærri Tal Afar með fjölskyldufeðrunum, það er hryðjuverkamönnunum. Kúrdarnir hafi í kjölfarið afhent Írökum börnin og konurnar en ekki er vitað um afdrif feðranna.

Í viðtali við AP sagði Kamel Harki, hershöfðingi Kúrda, að sumir mannanna hafi verið afhentir Írökum en aðrir drepnir eftir að hafa þóst gefast upp og ráðist á Kúrda.


Tengdar fréttir

Telja Baghdadi á lífi

Hernaðaryfirvöld Bandaríkjanna telja að leiðtogi Íslamska ríkisins sé í felum í eyðimörkinni á milli Írak og Sýrlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×