iPhone X mun þekkja andlit eiganda síns svo fólk getur látið símann skanna andlit sitt í stað þess að nota fingrafaraskanna eða lykilorð. Það er enginn heimahnappur á iPhone X en hann var fjarlægður til þess að skjárinn væri stærri en hann er 5,8 tommur. Skjárinn nær yfir alla framhlið símans og auglýsir Apple þennan síma með setningunni „Segðu halló við framtíðina.“
Phil Schiller markaðsstóri Apple kynnti þessa einstöku viðhafnarútgáfu af iPhone á viðburðinum í dag en ódýrasta útgáfan af símanum mun kosta í Bandaríkjunum 999 dali, sem eru 106.573 íslenskar krónur á gengi dagsins í dag. Síminn kemur í verslanir vestanhafs þann 3. nóvember en boðið verður upp á forpantanir.

Vörurnar voru kynntar í glænýrri byggingu Apple, Steve Jobs Theater, en viðburðurinn hófst á myndbandi þar sem rödd Steve Jobs var spiluð í bakgrunninum. „Við hugsum til hans á hverjum degi,“ sagði Cook í sínu erindi á viðburðinum í dag.