Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Víkingur - FH 2-4 | Ótrúlegur viðsnúningur í Víkinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Böðvar Böðvarsson sækir að Arnþóri Inga Kristinssyni.
Böðvar Böðvarsson sækir að Arnþóri Inga Kristinssyni. Vísir/Anton
FH vann sinn annan sigur í röð þegar liðið bar sigurorð af Víkingi R., 2-4, í 19. umferð Pepsi-deildar karla í kvöld.

Víkingar voru miklu sterkari aðilinn framan af leik en ótrúlegur þriggja mínútna kafli undir lok fyrri hálfleiks breytti gangi mála.

Víkingur hóf leikinn í stórsókn, fékk dauðafæri á fyrstu sekúndum leiksins og það kom því lítið á óvart þegar Geoffrey Castillion kom heimamönnum yfir á 4. mínútu. Hollendingurinn bætti öðru marki við eftir 25 mínútna leik og staða Víkinga orðin vænleg.

Fossvogsliðið var með góð tök á leiknum allt þangað til Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, minnkaði muninn með skalla eftir hornspyrnu Stevens Lennon á 37. mínútu.

Aðeins tveimur mínútum síðar var FH komið yfir, 2-3, eftir mörk frá Jóni Ragnari Jónssyni og Þórarni Inga Valdimarssyni. Það var ekki allt búið enn því í uppbótartíma fyrri hálfleiks skoraði Lennon fjórða mark FH úr vítaspyrnu og staðan í hálfleik því 2-4, Íslandsmeisturunum í vil.

Víkingar virtust enn vera að jafna sig á þessu rothöggi í seinni hálfleik og voru aldrei líklegir til að koma til baka. FH var með góð tök á leiknum og kláraði dæmið örugglega. Lokatölur 2-4, FH í vil.

Af hverju vann FH?

Fyrstu 37 mínúturnar litu FH-ingar út eins og fallbaráttulið. Þeir voru meira með boltann en sköpuðu ekki neitt. Þá var vörnin óörugg og í mestu vandræðum með að hemja Castillion.

En markið hjá Davíð breytti öllu. FH-ingar hömruðu járnið svo sannarlega meðan það var heitt og náðu tveggja marka forystu fyrir hálfleik.

Það var allt annað og meira öryggi yfir leik FH í seinni hálfleik og gestirnir voru mun líklegri til að bæta við mörkum en heimamenn að minnka muninn.

Þessir stóðu upp úr:

Lennon skoraði og lagði upp tvö mörk til viðbótar. Gott dagsverk hjá Skotanum. Böðvar Böðvarsson átti einnig afar góðan leik í liði FH.

Castillion skoraði tvö mörk og var besti maður Víkings í kvöld.

Hvað gekk illa?

Eins og áður sagði voru FH-ingar í miklum vandræðum framan af leik en sýndu styrk með því að koma til baka.

Andlegur styrkur er ekki orð sem er hægt að nota um Víkinga sem brotnuðu algjörlega niður eftir mark Davíðs. Ótrúlegt að sjá hjá frekar reyndu liði Víkings.

Hvað gerist næst?

FH er áfram í 3. sæti deildarinnar og á enn leik til góða. Íslandsmeistararnir mæta sjóðheitum Eyjamönnum í Kaplakrika í næstu umferð.

Eftir rýra uppskeru að undanförnu er Víkingur aðeins tveimur stigum frá fallsæti þegar þrjár umferðir eru eftir. Strákarnir hans Loga Ólafssonar verða því að ná í stig ef ekki á illa að fara. Næsti leikur Víkinga er gegn nöfnum þeirra í Ólafsvík.

Maður leiksins: Steven Lennon, FH

Einkunnir má sjá með því að smella á flipann Liðin hér fyrir ofan

Logi: Þurfum einhver stig

„Þetta er óútskýranlegt hrun á þremur mínútum. Við fengum á okkur mark þegar maður stendur frír nánast á marklínu, annað mark þegar það er skotið í mann og inn og svona komu þessi mörk. Með svona klaufagangi. Það er ótrúlegt að upplifa þetta eftir að hafa keyrt yfir FH-inga í upphafi leiks. Við hefðum getað verið 4-0 yfir þegar við fengum á okkur fyrsta markið,“ sagði Logi Ólafsson, þjálfari Víkings, eftir tapið fyrir FH í Víkinni í kvöld.

Víkingar voru með öll völd á vellinum og 2-0 yfir þegar Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, skallaði hornspyrnu Stevens Lennon í netið á 37. mínútu. Þegar Pétur Guðmundsson flautaði til hálfleiks var staðan orðin 2-4, FH í vil. Ótrúlegur viðsnúningur á ekki lengri tíma.

„Eðli málsins samkvæmt er ég mjög ósáttur. Þetta er algjörlega óútskýranlegt og maður veit ekki hvað grípur um sig; hvernig menn geta koðnað niður eins og þarna gerðist,“ sagði Logi sem sá eitt og annað jákvætt við leik sinna manna í seinni hálfleik.

„Mér fannst við vera að reyna en það er kannski skiljanlegt að trúin sé ekkert rosalega mikil þegar FH er komið tveimur mörkum yfir og liðið hefur gert sig sekt um að spila illa.“

Fyrir ekki svo löngu áttu Víkingar möguleika á að blanda sér fyrir alvöru í baráttuna um Evrópusæti. Nú er Fossvogsliðið aðeins tveimur stigum frá fallsæti þegar þrjár umferðir eru eftir.

„Taflan lýgur ekki. Tölurnar eru fyrir framan okkur. Það er ljóst, og ég sagði það eftir síðasta leik, að við þurfum einhver stig úr þessum leikjum sem eftir eru ef við ætlum ekki að lenda í frekari vandræðum,“ sagði Logi að lokum.

Heimir: Aldrei lent í þessu áður

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, átti erfitt með að útskýra kaflann ótrúlega gegn Víkingi R. þegar FH-ingar skoruðu þrjú mörk á jafnmörgum mínútum.

„Nei, engar. Ég hef aldrei lent í þessu áður og kann engar skýringar á þessu,“ sagði þjálfarinn eftir leik.

FH-ingar áttu í miklum erfiðleikum framan af leik og lentu 2-0 undir.

„Víkingarnir byrjuðu leikinn miklu og voru yfir á öllum sviðum fótboltans. Ég held að við höfum verið heppnir að vera bara 2-0 undir. En svo skoraði Davíð eftir hornspyrnu og menn fengu trú á þessu og fóru að hreyfa sig inni í vellinum. Maðurinn með boltann hafði allt í einu 2-3 sendingamöguleika,“ sagði Heimir sem var ánægður með seinni hálfleikinn hjá FH.

„Við vorum staðráðnir að fylgja þessum góða kafla eftir inn í seinni hálfleikinn.“

FH hefur unnið tvo leiki í röð og er í góðri stöðu í baráttunni um Evrópusæti.

„Vonandi gefur þetta okkur gott sjálfstraust. Við eigum erfiðan leik gegn ÍBV í Krikanum á sunnudaginn. Við þurfum að hvíla okkur vel og mæta vel undirbúnir til leiks,“ sagði Heimir að endingu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira