Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Stjarnan - Víkingur Ó. 3-0 | Stjarnan minnkaði forskot Vals á toppnum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Stjarnan vann öruggan sigur á Víkingi frá Ólafsvík í 19.umferð Pepsi-deildar karla í kvöld. Lokatölur urðu 3-0 og Garðbæingar eiga enn möguleika á titlinum. Ólsarar heyja hins vegar lífróður við botn deildarinnar.

Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, var á leiknum í kvöld og tók þessar myndir hér fyrir neðan.

Gestirnir byrjuðu ágætlega í kvöld og áttu fyrsta færið strax eftir 20 sekúndur. Þeir pressuðu ágætlega á Stjörnumenn sem leystu þó fljótt úr málunum og tóku yfirhöndina.

Á 33.mínútu kom síðan fyrsta markið og var það hálfgert gjafamark frá Christian Martinez markmanni Ólsara. Hilmar Árni Halldórsson átti þá skot töluvert fyrir utan teig sem Martinez virtist ætla að grípa en hann missti boltann hins vegar klaufalega í netið.

Markið gerði það að verkum að Ólsarar þurftu að koma framar á völlinn í síðari hálfleik og við það fengu Stjörnumenn meira pláss.

Eftir að Hólmbert Aron Friðjónsson kom Stjörnunn í 2-0 á 75.mínútu var aldrei spurning hvar sigurinn myndi lenda og þeir bættu við þriðja markinu skömmu síðar þegar Guðjón Baldvinsson skaut í varamanninn Ólaf Karl Finsen og í netið.

Stjörnumenn hefðu hæglega getað bætt við fleiri mörkum og meðal annars fór Ólafur Karl illa með tvö dauðafæri. Lokatölur urðu hins vegar 3-0 og Garðbæingar fögnuðu vel í leikslok.

Stjarnan er enn í 2.sæti og eru nú sjö stigum á eftir toppliði Vals þegar þrjár umferðir eru eftir. Möguleikinn á titlinum er því enn til staðar þó lítill sé. Víkingar eru komnir í fallsæti eftir umferðina, einu stigi á eftir Fjölni sem á leik til góða og tveimur stigum á eftir ÍBV. Þeir verða einfaldlega að fara að næla í stig ætli þeir sér ekki að falla í Inkasso-deildina.

Af hverju vann Stjarnan?

Gæðin í liði Stjörnumanna eru einfaldlega meiri en í liði Víkinga. Leikskipulag gestanna byggðist á því að liggja til baka og beita skyndisóknum og eftir að Hilmar Árni kom heimamönnum yfir þurfti að bregða frá þeirri áætlun.

Í síðari hálfleik kom munurinn vel í ljós og sigurinn hefði getað orðið stærri því leikur Víkinga hrundi eftir mörkin tvö í seinni hálfleik. Það eru margir leikmenn í liði Stjörnunnar sem leggja grunninn að þeirra leik og þegar Víkingar eru þar að auki farnir að gefa Stjörnunni mark þá minnka möguleikar þeirra verulega.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá Stjörnunni voru margir sem áttu fínan leik. Eyjólfur Héðinsson var traustur á miðjunni og Hilmar Árni Halldórsson sífellt hættulegur og skapandi. Haraldur Björnsson hafði ekkert sérlega mikið að gera en varði þó afar vel í þrjú skipti úr góðum færum Ólsara. Þá var Jóhann Laxdal góður í hægri vængbakverðinum.

Hjá Ólsurum var Kwame Quee þeirra besti maður og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Hann hefur mikla hlaupagetu og getur gert ágæta hluti með boltann. Christian Martinez átti ágætan leik í markinu en mistökin sem hann gerði voru dýr.

Hvað gekk illa?

Víkingar nýttu ekki þau færi sem þeir fengu sem er auðvitað algjört lykilatriði í öllum knattspyrnuleikjum en kannski sérstaklega í leik eins og þessum þar sem færin koma ekki í færibandi.

Í raun var ekki mikið sem gekk illa hjá heimamönnum nema þá kannski helst færanýtingin í lokin og Ólafur Karl Finsen nagar sig eflaust í handarbökin að hafa ekki skorað undir lokin.

Maður leiksins: Eyjólfur Héðinsson, Stjarnan.Einkunnir leikmanna má sjá í flipanum liðin hér að ofan.

Ejub: Mér fannst við gefa þeim leik
vísir/stefán
Ejub Purisevic þjálfari Víkinga var ánægður með sumt í leik sinna manna en sagði annað mark Stjörnunnar hafa gert út um leikinn.

„Mér fannst við gefa þeim leik. Við byrjuðum vel og fengum á okkur mark þar sem við vorum svolítið óheppnir. Við byrjum líka vel í seinni hálfleik en svo þegar þeir skora annað markið er þetta ansi erfitt,“ sagði Ejub við Vísi að leik loknum.

Fyrsta mark Stjörnunnar kom eftir mistök hjá Christian Martinez í marki Ólsara en hann hefur verið frábær í rammanum í sumar. Ejub vildi ekki skella skömminni á hann.

„Þetta er bara leikur sem tapast og það er ekkert meira um það að segja. Mistök eru hluti af leiknum og eftir því sem þú gerir fleiri mistök er það auðvitað verra. En við verðum að horfa á næsta leik og hann gerir örugglega betur í næsta leik. Það er ekkert við því að segja.“

Ólsarar eiga næst leik gegn Víkingum frá Reykjavík og mæta í þann leik með lykilmennina Kwame Quee og Kenan Turudija í leikbanni.

„Við erum komnir í smá vítahring varðandi bönn og meiðsli og höfum verið í því í síðustu 5-6 leikjum. Við erum ekki með stærsta hópinn í deildinni þannig að þetta getur verið erfitt. Þetta var aldrei auðvelt hjá okkur en við gáfum þeim leik og getum vonandi gert það á sunnudag. Það er mjög mikilvægur leikur og vonandi mætum við tilbúnir,“ sagði Ejub þjálfari Víkinga að lokum.

Rúnar Páll: Þarf mikið að gerast svo Valur misstígi sig
„Það er alltaf erfitt að spila gegn Víkingi. Staðan 1-0 er mjög hættuleg og ég var ánægður að fá mörkin tvö í lokin. Við höldum áfram að safna stigum á heimavelli og það er jákvætt,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar eftir sigurinn á Ólsurum í kvöld en Stjörnumenn halda 2.sætinu og eiga enn möguleika á Íslandsmeistaratitilinum.

Staðan í hálfleik í kvöld var 1-0 og voru Stjörnumenn sterkari aðilinn eftir að Ólsarar höfðu byrjað af krafti strax í upphafi. Fannst Rúnari að hans menn hefðu átt að skora fleiri mörk fyrir hlé?

„Ég man það nú ekki alveg. Við fengum ágætis upphlaup en vorum ekki nógu hungraðir fyrir framan markið. Ég man ekki eftir að við höfum skapað einhver svakaleg færi áður en við skoruðum markið. Það var gott að fá það og það er um að gera að skjóta á markið og sjá hvað gerist.“

„Við eigum eftir að spila þrjá leiki og Valur líka. Við höldum áfram og við eigum Skagann á útivelli á sunnudaginn. Við ætlum auðvitað að vera með í baráttunni en Valur er í það góðri stöðu að það þarf mikið að gerast svo þeir misstígi sig,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar að lokum.

Eyjólfur: Skil ekki hvernig hann varði þetta en ekki hitt skotið
„Mér fannst þetta fínn leikur hjá okkur og þroskuð frammistaða. Fyrstu tíu mínúturnar vorum við frekar tæpir og þeir fengu einhver skotfæri en svo fannst mér við taka yfir og stýra leiknum,“ sagði Eyjólfur Héðinsson leikmaður Stjörnunnar sem átti fínan leik í 3-0 sigrinum á Víkingi frá Ólafsvík í kvöld.

Eyjólfur sagði að það hefði verið erfitt að brjóta Víkingana á bak aftur en að Stjörnumenn hefðu vitað að þeir myndu opna sig ef Stjarnan næði inn marki.

„Það gerðu þeir svo sannarlega og við áttum flottar sóknir, sérstaklega í seinni hálfleik. Við hefðum getað gert fleiri mörk. Þetta var þolinmæðisvinna og við erum líka ánægðir með að halda hreinu,“ bætti Eyjólfur við.

Valsmenn töpuðu stigum í kvöld og Stjarnan því búin að minnka forskot þeirra niður í sjö stig þegar þrjár umferðir eru eftir.

„Mér skilst að það sé enn möguleiki á fyrsta sætinu og við keyrum á það á meðan það er. Við eigum Val í næstsíðustu umferð hér heima og ef þeir skíta á sig næst er enn góður möguleiki. Auðvitað er gott að stefna á Evrópusæti líka en á meðan það er möguleiki á titli þá keyrum við á það.“

Eyjólfur sýndi fín tilþrif í síðari hálfleik þegar hann átti hálfgert klippuskot frá vítateigslínu sem Víkingar náðu að verjast. Hann viðurkenndi að það hefði verið gaman að sjá boltann fara í netið.

„Ég hef átt nokkur góð skot í sumar, nokkur í þverslána og þeir hafa verið að verja frá mér líka. Það hefði verið gaman að sjá þennan inni. Ég skil ekki hvernig hann gat varið frá Himma (Hilmari Árna) þarna í fyrri hálfleik en svo tekið skotið frá mér. Við hefðum betur skipt á þessu en svona er þetta,“ sagði Eyjólfur að lokum en hann er þar að vísa til fyrsta marks Stjörnunnar þar sem Christian Martinez missti skot Hilmars Árna Halldórssonar klaufalega í netið.

Þorsteinn Már: Viljum gera betur en í kvöld
Þorsteinn Már Ragnarsson framherji Ólsara sagði að allt hefði orðið erfiðara eftir að Stjarnan komst yfir í leiknum í kvöld en var þó ánægður með ýmislegt í leik sinna manna.

„Mér fannst við byrja leikinn mjög vel og fyrstu mínúturnar vorum við betri, náum að pressa og sýna góðan leik. Síðan koma gæðin ljós hjá Stjörnunni og þeir bara kláruðu þetta nokkuð vel.“

„Það eru þrír leikir eftir og við förum í hvern einasta leik til að vinna. Það er gott að það sé stutt í næsta leik því við viljum gera betur en í kvöld. Við verðum bara klárir á sunnudag gegn Víkingi Reykjavík,“ bætti Þorsteinn Már við og sagði enga uppgjöf vera komna í hóp Ólsara.

Næsti leikur Víkinga er gegn nöfnum sínum frá Reyjavík en þar kemur lítið annað til greina en þrjú stig hjá Ólafsvíkingum.

„Ég býst við hörkuleik og fullt af áhorfendum. Við munum gefa allt og hlakka til að fara í þann leik því við ætlum að gera betur en í kvöld.“

Eyjólfur var einn besti maður StjörnunnarVísir/Ernir
Hólmbert Aron Friðjónsson í leiknum í kvöld.Vísir/Ernir
Ejub á hliðarlínunni í kvöldVísir/Ernir
Það var hart barist á Samsung-vellinumVísir/Ernir
Hilmar Árni Halldórsson með boltann í leiknum í kvöld.Vísir/Ernir

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira