Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: FH - ÍBV 2-1 | Lennon tryggði FH-ingum sigur með marki á elleftu stundu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Steven Lennon skoraði sigurmark FH.
Steven Lennon skoraði sigurmark FH. Vísir/Eyþór
FH-ingar tryggðu sér mikilvæg þrjú stig í baráttunni um Evrópusæti þegar Steven Lennon skoraði sigurmarkið í 2-1 sigri FH á ÍBV á lokamínútum leiksins. ÍBV situr eftir með sárt ennið og er í bullandi fallbaráttu.

Gestirnir úr Eyjum geta verið ósáttir með að fara ekki með að minnsta kosti eitt stig heim í farteskinu. Á löngum köflum var liðið með Íslandsmeistarana í vasanum sem gekk ill að skapa sér færi úr opnu spili.

Markalaust var í fyrri hálfleik en ÍBV komst yfir strax á 47. mínútu. Arnór Gauti Ragnarsson stakk boltanum glæsilega inn á Zhahab Zahedi Tabar sem lék á Gunnar Nielsen í markinu og skoraði.

FH-ingar voru þó ekki lengi að svara en á 55. mínútu var liðið búið að jafna. Steven Lennon sendi hornspyrnu á fjærstöng þar sem Emil Pálsson skallaði boltann fyrir markið. Bergsveinn Ólafsson var fyrstur að átta sig og skóflaði boltanum í netið.

ÍBV lá mikið til baka eftir jöfnunarmark FH og var pressa heimamanna nokkuð þung án þess þó að liðið skapaði sér teljandi færi. Allt útlit var fyrir jafntefli áður en Skotinn Lennon dúkkaði upp á 94. mínútu.

Boltinn barst til hans út í teignum eftir fyrirgjöf og gerði hann allt rétt, tók boltann á lofti og boltinn söng í netinu.

Úrslit annarra leikja gera það að verkum að FH er nú í 2. sæti með leik til góða á liðin í kringum sig og í vænlegri stöðu í baráttunni um Evrópusæti. ÍBV situr eftir í bullandi fallbaráttu aðeins tveimur stigum frá fallsæti og eiga önnur lið í fallbaráttunni leik til góða á Eyjamenn.

Vísir/Eyþór

Af hverju vann FH?

FH-ingar geta prísað sig nokkuð sæla með að hafa nælt í öll þrjú stigin hér í dag. Eyjamenn fengu fín færi í fyrri hálfleik til að klára leikinn en voru ekki nógu agaðir fyrir framan markið. Sóknarleikur ÍBV snerist að miklu leyti um Íranann Shahab Zahedi en hann fór út af á 55. mínútu.

Þá þurfti leikmaðurinn sem kom inn á fyrir hann, Alvaro Montejo, einnig að fara út af vegna meiðsla en við það þurfti Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV, að breyta liðsuppstillingunni. FH gekk á lagið og lagði þunga pressu á ÍBV síðasta hálftímann eða svo.

Ekkert virtist ætla að ganga en þegar leikmaður eins og Steven Lennon er inn á vellinum getur allt gerst og það var hann sem leysti FH út úr vandræðunum með afar góðu marki.

Hvað stóð upp úr?

Skyndisóknir ÍBV voru skeinuhættar og ljóst er að Shahab Zahedi er hörkuleikmaður. Hann var allt í öllu og var varnarlínu FH afar erfiður í dag, enda sást best hvað bitið fór úr sóknarleik ÍBV þegar hann fór út af.

Gunnar Nielsen var einnig öruggur í marki FH sem fyrr og varði hann nokkrum sinnum afar vel eftir að ÍBV hafði opnað vörn FH upp á gátt.

Það voru hins vegar töfrarnir í skónum hans Lennon sem skyldi að milli feigs og ófeigs hér í kvöld. Mark hans var gullfallegt og það besta sem nokkur leikmaður gerði í leiknum.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur FH-inga var ekki upp á marga fiska í leiknum. Liðið leitaði mikið á kantana og gaf margar fyrirgjafir. Margar þeirra voru afar eitraðar en oftar en ekki skorti FH-inga í teignum til að fylgja þeim eftir.

Steven Lennon átti nokkrar góðar fyrirgjafir sem runnu út í sandinn og ljóst er að leikmaður eins og Kristján Flóki Finnbogason hefði gefið FH mikið í þessum leik.

Maður leiksins: Steven Lennon. Einkunnir leikmanna má sjá í flipanum liðin hér að ofan.

Kristján GuðmundssonVÍSIR/eyþór
Kristján: Í stöðugri keppni við falldrauginn

„Að fá á sig mark þegar leiktíminn er runninn út, það er að sjálfsögðu mjög svekkjandi,“ segir Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV, í leikslok eftir tapið gegn FH. Hann segir erfitt að taka því að tapa með þeim hætti sem liðið gerði.

ÍBV var skeinuhættari aðilinn lengst af og hefði liðið vel getað farið inn í hálfleikinn með góða stöðu en allt var í járnum í hálfleik 0-0.

„Við erum ósáttir með það að við skyldum ekki fara betur með boltann í fyrri hálfleik,“ segir Kristján. „Við áttum að geta skorað fleiri mörk í fyrri hálfleik og klára leikinn þá. Í seinni hálfleik fannst mér við bakka of mikið.“

FH-ingar settu þunga pressu á ÍBV undir lokin náði FH að stela sigrinum með marki á lokasekúndum leiksins. Kristján segir að álagið hafi verið mikið undanfarna daga og það hafi haft sín áhrif.

„Þetta var pínu þungur leikur, þriðji leikurinn á átta dögum hjá báðum liðum þannig að þetta var viðbúið. Svona mistök eins og komu núna undir lokin eru kannski eðlileg.“

ÍBV er rétt fyrir ofan fallsætin tvö með 22 stig en næstu lið fyrir neðan eiga leiki til góða á ÍBV og því ljóst að liðið þarf helst að vinna báða leikina sem eftir eru. Það er engan bilbug að finna á Kristjáni, þrátt fyrir tapið.

„Við erum í stöðugri keppni við falldrauginn, það er á hreinu. Við vissum það áður en við komum hingað að við höfðum þrjá leiki til að tryggja okkur áfram í deildinni. Þetta fór ekkert núna og það er alveg nóg eftir.“

Heimir var sáttur með stigin þrjú.vísir/stefán

Heimir: Manna fegnastur þegar Shahab fór út af

Heimir Guðjónsson átti erfitt með að leyna ánægju sinni í leikslok. Hann segir að sitt lið geti gert betur en stigin þrjú séu kærkomin á töfluna.

„Það var frábært að skora á síðustu mínútunni og frábært að vinna þennan leik. Þetta var stór liður í að reyna að ná þessu Evrópusæti,“ segir Heimir.

Liðið situr í 2. sæti með leik til góða á liðin í kringum sig og með góða stöðu á KR og Stjörnuna sem koma á eftir. Í leiknum í kvöld leit ekki út yfir að FH myndi ná sigurmarkinu en það kom fyrir rest og Heimir gaf aldrei upp vonina.

„Nei, það er alltaf von. Við lentum í vandræðum með skyndisóknirnar þeirra og vorum að fá þá í stöði einn á móti einum,“ segir Heimir en ÍBV beitti skyndisóknum með Shahab Zahevi fremstan í flokki af miklum krafti.

Hann fór hins vegar út eftir 55. mínútna leik og var Heimir afar ánægður með það.

„Ég var nú manna fegnastur þegar Shahab fór af velli.“

Shahab Zahevi.Vísir/Eyþór
Vísir/Eyþór
Vísir/Eyþór
Vísir/Eyþór

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira