Notendur um allan heim gátu fyrst í síðustu viku hlaðið niður Tinder Gold. Hin nýja uppfærsla býður notendum, sem greiða fyrir þjónustuna, að sjá hverjir hafa „svæpað“ til hægri áður en þeir „svæpa“ sjálfir. Forvitni notenda virðist hafa borið þá ofurliði en margir hafa fjárfest í uppfærslunni og hún þannig talin hafa komið Tinder á topplista yfir tekjuhæstu smáforritin.
Tinder-notendur í makaleit fá upp myndir af öðrum vænlegum notendum á snjallsímaskjái sína, sem þeir annað hvort „svæpa“ til hægri ef þeim hugnast viðkomandi en til vinstri ef þeir hafa ekki áhuga. Ef báðir aðilar „svæpa“ til hægri verður til svokölluð „samsvörun“ eða „match“ og þá opnast möguleiki fyrir samskipti á milli notendanna tveggja. Þeir sem kaupa áskrift að Tinder Gold geta nú séð vænlegar samsvaranir fyrirfram.
Brian Norgard, sem er yfir gagnaöflun hjá Tinder, greindi frá listanum á Twitter-reikningi sínum í vikunni og minntist sérstaklega á það hversu vænleg áskriftarþjónusta af þessu tagi væri.
Today Tinder is the top grossing app in the world — I told you subscriptions might be a thing one day pic.twitter.com/YGWJ30SKJo
— Norgard (@BrianNorgard) August 30, 2017