Erlent

Trump um aðgerðir Norður-Kóreu: „Þeir skilja bara eitt“

Bjarki Ármannsson skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir áframhaldandi kjarnorkutilraunir Norður-Kóreumanna ógn við Bandaríkin.
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir áframhaldandi kjarnorkutilraunir Norður-Kóreumanna ógn við Bandaríkin. Vísir/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir áframhaldandi kjarnorkutilraunir Norður-Kóreumanna ógn við Bandaríkin og gefur í skyn að bregðast þurfi við þeim með hernaðaraðgerðum.

Þetta segir forsetinn á Twitter-síðu sinni rétt í þessu. Um er að ræða fyrstu viðbrögð Trump við þeim tíðindum að Norður-Kóreumenn hafi í nótt sprengt vetnissprengju í tilraunaskyni. Sprengjan er sú öflugasta sem einræðisríkið hefur sprengt til þessa og sú fyrsta frá því að Trump tók við embætti í ársbyrjun.

Yfirvöld í Kína, Rússlandi og Bretlandi hafa í morgun fordæmt tilraunina. Trump hefur ítrekað farið hörðum orðum um Norður-Kóreu og leiðtoga landsins, Kim Jong-un, sagt að friðarviðræður muni ekki ná að draga úr spennu á Kóreuskaga og hótað að Bandaríkin muni mæta Norður-Kóreu með „eldi og heift“ láti síðarnefnda ríkið ekki af kjarnorkutilraunum sínum.

„Norður-Kóreumenn hafa framkvæmt meiriháttar kjarnorkutilraun,“ segir í Twitter-færslum Trump nú í morgun. „Orð þeirra og gjörðir eru áfram fjandsamleg og ógn í garð Bandaríkjanna.“

Hann segir að hegðun Norður-Kóreu sé ríkisstjórn Kína til skammar og að Suður-Kóreumenn séu nú að komast að því að friðarviðræður við nágrannaríki þeirra muni ekki bera árangur.

„Þeir skilja bara eitt,“ segir Trump í lok síðustu færslu sinnar og má gera því skóna að hann eigi við hernaðaraðgerðir af einhverju tagi.

Ríkisfréttaveita Norður-Kóreu hefur í morgun hreykt sér af tilrauninni og sagt hana hafa heppnast fullkomlega.


Tengdar fréttir

Langöflugasta sprengjan hingað til

Vetnissprengjan sem Norður-Kóreumenn sprengdu í nótt var um það bil tíu sinnum öflugri en nokkuð annað kjarnorkuvopn sem ríkið hefur gert tilraunir með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×