Íslenski boltinn

Verður Þór/KA Íslandsmeistari í kvöld?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Þór/KA fagna marki fyrr í sumar.
Leikmenn Þór/KA fagna marki fyrr í sumar. Vísir/Eyþór
Þór/KA á í kvöld möguleika á að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í Pepsi-deild kvenna er liðið mætir Stjörnunni á heimavelli í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 17.30 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 4.

Þór/KA er með 38 stig á toppi deildarinnar og fimm stiga forystu á Breiðablik þegar þrjár umferðir eru eftir. Sigur í kvöld dugir því norðanstúlkum til að vinna titilinn, ef Breiðabliki mistekst að vinna ÍBV á heimavelli í kvöld. Sá leikur hefst á sama tíma og á Þórsvelli.

ÍBV er á mikilli siglingu þessa stundina en Eyjakonur urðu fyrstar til að leggja Þór/KA að velli fyrir rúmri viku síðan. Þar á undan gerði liðið jafntefli við Stjörnuna og vann sigur á Val.

Eyjaliðið er þar að auki komið í úrslitaleik bikarsins þar sem það mætir Stjörnunni um helgina.

Þór/KA varð síðast Íslandsmeistari árið 2012 en ef liðið misstígur sig gegn Stjörnunni í kvöld er komin enn meiri spenna í toppbaráttu deildarinnar fyrir lokaumferðir tímabilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×