Erlent

Ungverjar og Slóvakar verða líka að taka á móti flóttamönnum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Ungverjar komu upp girðingu á landamærum sínum 2015.
Ungverjar komu upp girðingu á landamærum sínum 2015. vísir/epa
Evrópudómstóllinn hafnaði í gær kröfum Ungverja og Slóvaka um að hnekkja ákvörðun um dreifða móttöku flóttamanna innan Evrópusambandsins. Meirihluti ríkja Evrópusambandsins tók ákvörðunina árið 2015, þegar sem flestir flóttamenn komu til álfunnar, en Ungverjar og Slóvakar hafa ekki viljað taka á móti þeim flóttamönnum sem þeim er skylt að gera.

Ungverjar áttu samkvæmt áætluninni að taka á móti 1.294 flóttamönnum en Slóvakar 802. Hins vegar hafa Ungverjar ekki tekið á móti neinum og Slóvakía hefur einungis tekið á móti rúmum tug.

Ákvörðunin var tekin til þess að reyna að létta á þeim ríkjum sem flóttamenn koma fyrst til, einkum Ítalíu og Grikklandi. Kusu eingöngu Ungverjaland, Slóvakía, Tékkland og Rúmenía á móti.

Höfnun Evrópudómstólsins fór öfugt ofan í ríkin tvö. Sagði Peter Szijjarto, utanríkisráðherra Ungverjalands, í gær að úrskurðurinn væri óábyrgur og að hann myndi gera allt sem í sínu valdi stæði til að sniðganga hann. „Úrskurðurinn grundvallast á pólitík en ekki lögum eða sérfræðiálitum,“ sagði Szijjarto.

„Stjórnmálin hafa nauðgað evrópskum lögum og evrópskum gildum. Þessi úrskurður festir í raun yfirráð Evrópusambandsins yfir sambandsríkjum í lög. Hinn raunverulegi bardagi hefst núna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×