Erlent

Trump minnir repúblikana á af hverju þeir treysta honum ekki

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/AFP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, var í góðu skapi skömmu eftir að hann vaknaði í gær. Hann hafði horft á fréttir og séð jákvæða umfjöllun um þá ákvörðun sína að gera samkomulag við demókrata varðandi skuldaþak ríkisins og fjármögnun stjórnvalda. Jafnvel þó hann hafi grafið verulega undan eigin flokki með samkomulaginu.

Samkvæmt New York Times hringdi forsetinn í Nancy Pelosi, leiðtoga minnihlutans í fulltrúadeild þingsins, og ræddi við hana um hina jákvæðu umfjöllun. Hann ræddi einnig við Chuck Schumer, leiðtoga demókrata í öldungadeildinni, og gladdist yfir því að jafnvel fréttir Fox News væru á jákvæðum nótum.



Skömmu seinna hét hann því að starfa meira með fulltrúum Demókrataflokksins.

„Ég held að samband okkar verði allt annað en það hefur verið undanfarin ár. Ég held að þetta sé frábært fyrir Bandaríkin og að þetta sé eitthvað sem fólkið vill sjá. Þau vilja viðræður og sjá okkur ná saman að einhverju leyti,“ sagði forsetinn við blaðamenn í gær.



Sjá einnig: Trump valtar yfir áætlanir repúblikana



Þrátt fyrir að repúblikanar séu jafnvel reiðir út í Trump draga margir í efa að þetta ástand muni vara. Bæði þá muni Trump sjálfur missa áhugann á samstarfi við demókrata og demókratar muni missa áhugann á samstarfi við forsetann.

Blaðamenn Politico segja ljóst að Trump hafi engan áhuga á að leiða Repúblikanaflokkinn á nokkurn hátt. Hann hefur ítrekað skammast yfir leiðtogum flokksins og jafnvel kallað eftir því að þingmenn sem honum lýst ekki á, verði ekki kosnir aftur.



Trump er óútreiknanlegur og þingmenn flokks hans eru ósáttir við nýjasta útspil forsetans. Gjá hefur einnig myndast á milli þingmanna flokksins og leiðtoga þeirra í báðum deildum þingsins. Það er þeirra Paul Ryan og Mitch McConnell.

Samkvæmt frétt Washington Post óttast þingmenn Repúblikanaflokksins að samband þeirra við Hvíta húsið hafi beðið verulega hnekki og að erfitt verði að koma stórum málum í gegnum báðar deildir þingsins og í gegnum forsetann.

Uppfært 13: 15

Búið er að bæta við þremur tístum Trump þar sem hann gagnrýnir þingmenn Repúblikanaflokksins og segir þeim að einbeita sér að breytingum á skattkerfi Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×