Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Víkingur Ó. - Fjölnir 4-4 | Jafnt í átta marka fallslag - Sjáðu mörkin

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Víkingur Ó. og Fjölnir mættust í hreint út sagt ótrúlegum leik á Ólafsvíkurvelli í kvöld.

Fjölnir byrjuðu eilítið betur og voru grimmir í upphafi leiks. Það kom þó ekki að sök fyrir Ólsara sem svöruðu pressu Fjölnis með, ekki bara einu marki, heldur þremur mörkum og komust í 3-0.

Margir héldu þá, skiljanlega, að leik væri hreinlega lokið en svo var alls ekki. Fjölnir svöruðu þessum þremur mörkum með því að setja boltann tvisvar í netið og minnkuðu muninn í 3-2. Þannig var staðan í hálfleik.

Fjölnir fóru inn í seinni hálfleikinn með mikinn byr undir seglinn og voru mun líklegri til að jafna en Víkingur Ó. til að komast í tveggja marka forystu. Á endanum brast stíflan og Fjölnir jafnaði með marki Linus Olsson.

Þegar 8 mínútur voru eftir skoraði svo Ægir Jarl fjórða mark Fjölnis og gestirnir því hársbreidd frá því að innsigla endurkomu sína. Það gekk ekki betur en svo að Kenan Turudija jafnaði metinn fimm mínútum síðar með öðru marki sínu í leiknum.

Lokatölur 4-4 í hreint ótrúlegum leik þar sem undirritaður er enn að reyna að ná andanum.

Afhverju lauk leiknum með jafntefli?

Það þarf sennilega einhverja doktorsritgerð til þess að greina almennilega afhverju í ósköpunum þessi leikur endaði með jafntefli.

Ekkert lið á að skora fjögur mörk og fara heim með eitt stig. Víkingur Ó. mun bölva því í sand og ösku að hafa ekki klárað leikinn með sigri eftir að hafa verið með þriggja marka forskot í fyrri hálfleik.

Að sama skapi munu Fjölnismenn bölva því að hafa náð forystunni á lokamínútum leiksins bara til þess að missa leikinn aftur í jafntefli.



Hverjir stóðu upp úr?

Enginn varnarmaður getur farið glaður af velli í dag en þó nokkrir sóknarmenn létu til sín taka. Kenan Turudija skoraði tvö mörk og þ.á.m. jöfnunarmark Ólsara en með honum í liði var Þorsteinn Már sem skoraði eitt og lagði upp áður nefnda jöfnunarmark.

Í liði Fjölnis var Linus Olsson sprækur með tvö mörk og einnig átti Marcus Solberg marga góða spretti. Einnig væri hægt að nefna Ingimund Níels en mér fannst hann vera sprækur þangað til hann var tekinn útaf á 59. mínútu.

Hvað gekk illa?

Eitt orð. Varnarleikurinn.

Ejub Pursevic, þjálfari Ólsara, var mjög ósáttur í leikslok og sagði ekki vera hægt að laga það sem fór illa enda var um grundvallaratriði að ræða: Að sparka í bolta og skalla bolta.

Fjölnisvörnin byrjaði hrikalega en vann sig þó aftur inn í leikinn bara til þess að fá blauta jafnteflis-tusku beint í andlitið í blálokinn.

Hvað gerist næst?

Víkingur Ó. heimsækir Stjörnuna á teppið í Garðabænum og Fjölnir fær botnlið ÍA í heimsókn.

Gífurlega mikilvægir leikir framundan fyrir bæði lið. Fallbaráttan verður rosaleg á komandi vikum.

Ejub: Sumt er ekki hægt að lagaEjub Pursevic, þjálfari Víkings Ó., var ósáttur við sína menn í leikslok og gagnrýndi varnarleik liðsins harkalega en Fjölnis menn náðu í 4-4 jafntefli þrátt fyrir að hafa lent 3-0 undir í fyrri hálfleik.

„Mér finnst þetta vera ótrúlegt. Í stöðunni 3-0 þá áttum við bara að klára hálfleikinn. Halda góðum varnarleik. En málið er að Fjölnir þurfti ekki einu sinni að spila vel. Þeir gátu bara neglt boltanum fram og við sáum um rest.“

Eins og áður kom fram lét Ejub varnarlínu sína heyra það en hann segir að grundvallaratriði hafi orðið sínum mönnum að falli.

„Sumt er ekki hægt að laga. Eins og t.d. langur bolti fram eða fyrirgjöf inn í teig og menn geta ekki sparkað í bolta eða skallað hann frá. Það er ekki hægt að laga það. Á ég að fara að kenna meistaraflokk að sparka í eða að skalla bolta? Eina sem maður getur gert að skipta þeim bara útaf.“

Guðmundur Steinn var ekki með en hann hefur átt beinan þátt að 10 mörkum liðsins í sumar með því að skora átta mörk og leggja upp tvö. Hann segir það möguleiki á að hann nái í besta falli síðustu tveimur leikjum sumarsins en hann hljómaði alls ekki vongóður.

„Við gælum við og vonumst að hann nái einum eða tveimur síðustu leikjum sumarsins. Eins og staðan er þá er hann einfaldlega frá. Ef við fáum hann aftur þá væri það stór bónus.“

Ágúst Þór: Mjög skrýtin tilfinning.Ágúst Þór, þjálfari Fjölnis, vissi ekki almennilega hvernig honum átti að líða í leikslok eftir ótrúlegt jafntefli við Víking Ó. í kvöld.

„Mjög skrýtin tilfinning eftir leikinn. Ég get allavega sagt að við sýndum gífurlegan karakter að koma til baka eftir að vera 3-0 undir.“

Hann segir mikinn karakter sé í liðinu og að hann sé handviss um að hann komi til að nýtast liðinu vel á komandi vikum í fallbaráttunni.

„Það er ótrúlegt að snúa svona leik sér í hag. Það er gífurlegur karakter í liðinu. Við máttum alls ekki tapa þessum leik og það var karakterinn sem snéri þessu við.“

Næsti leikur er gegn ÍA og var Ágúst handviss hvernig hans menn gætu gert betur en í kvöld.

„Við getum allavega ekki byrjað leikinn á að vera 3-0 undir. Það er á hreinu“

Linus Olsson: Verð ánægður á morgun„Á morgun verð ég ánægður með eitt stig,”  sagði Linus Olsson en blendnar tilfinningar voru áberandi í leikslok eftir stórbrotið jafntefli gegn Ólafsvíkingum en hann skoraði tvö mörk fyrir Fjölni í kvöld.

Hann segist vera bjartsýnn á framhaldið en mikil fallbarátta er framundan hjá Fjölni.

„Við erum með mikið sjálfstraust. Við erum með fjögur stig úr síðustu tveimur leikjum. Ef við sýnum svona spilamennsku og sama karakter og við gerðum í dag þá held ég að við verðum ekki í miklum vandræðum með að safna nokkrum stigum.“

Fjölnismenn voru margir heitt í hamsi í stöðunni 3-0 og margar skrautlegar tæklingar flugu hingað og þangað.

„Ég hata að tapa en eg róaðist niður eftir að ég skoraði. Ég er ánægður með mitt mark. Það hefur verið erfitt að venjast íslenska fótboltanum en það er að lagast og vonandi get ég skorað nokkur mörk áður en sumarið klárast.“



Þorsteinn: Líður eins og við höfum tapaðÞorsteinn Már var hundsvekktur í leikslok eftir að Víkingur Ó. missti niður 3-0 forystu í 4-4 jafntefli gegn Fjölni.

„Mér líður eins og við töpuðum leiknum. Við vorum komnir draumastöðu eftir hálftíma leik og ég veit ekki hvað gerist. Við höldum greinilega að við vorum bara búnir að vinna þetta og slökum á.“

Guðmundur Steinn var ekki með í dag og ljóst er að hann mun missa af næstu leikjum liðsins og fyrirfram bjóst undirritaður við að það myndi hafa neikvæð áhrif á markaskorun liðsins en svo var ekki.

„Pap kom flottur inn í dag og fyllti þessi spor Þorsteins vel. Barðist vel og hljóp mikið. Mjög jákvætt að fá hann svona sterkan inn. Það er bara gamla klisjan að það kemur maður í manns stað.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira