Skoðun

Aukum jöfnuð

Logi Einarsson skrifar
Í nýrri könnun ASÍ kemur fram að skattar hafa hækkað á alla tekjuhópa frá árinu 1998, langmest á þá tekjulægstu. Á þessum 19 árum hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í ríkisstjórn í 15 ár, lengst af í öndvegi. Hann hefur horn í síðu skatta og lítur alls ekki á þá sem leið til tekjujöfnunar. Þess vegna hefur Sjálfstæðisflokkurinn nú og á síðasta kjörtímabili, dregið úr þrepaskiptingu skattkerfisins, afnumið auðlegðarskatt og stórminnkað barna- og húsnæðisstuðning. Álögum hefur verið létt af ríkasta fólki landsins en verið auknar á venjulegt fólk, ekki síst þá tekjulægstu. Þetta er ómannúðleg forgangsröðun í samfélagi þar sem fjöldi fólks, á öllum aldri, berst í bökkum og meira en 6.000 börn búa við skort. Og það í góðæri.

Sífellt fleiri alþjóðlegar rannsóknir sýna að mikill jöfnuður er líklegur til að skapa friðsælt, kraftmikið samfélag og því skiptir jöfnunarhlutverk skattkerfisins miklu máli. Sú staðreynd að danskt lágtekjufólk sé mun líklegra til að upplifa „ameríska drauminn“ en fólk í sömu stöðu í Bandaríkjunum talar líklega sínu máli.

Hún er vel þekkt mantra Sjálfstæðisflokksins um að ævinlega beri að lækka skatta, enda sé einstaklingurinn ávallt betur til þess fallinn en ríkið, að ráðstafa tekjum sínum. Þessi frasi er yfirborðskenndur, villandi og skammsýnn; hann dugar ekki einu sinni til að tryggja vel launuðu fólki öryggi, hvað þá hinum tekjulægri. Flest lendum við nefnilega í veikindum eða stórum áföllum á ævinni og án sterkrar samneyslu værum við langflest illa í stakk búin til að mæta þeim. Því væri nær að fullyrða að réttlát skattgreiðsla sé gáfulegasta fjárfesting sem flestir Íslendingar taka þátt í á ævinni.

Í nýsamþykktri fjármálaáætlun fullyrða Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Björt framtíð að skattar séu andstæða frelsis. Þótt þessi fífilbrekkulega fullyrðing virðist kannski léttvæg, felst í henni nöturleg framtíðarsýn. Fram undan er hatrömm barátta milli þeirra flokka sem munu auka bilið milli þeirra efnameiri og tekjulægri, og hinna sem vilja byggja samfélag aukins jöfnuðar.

 

Höfundur er formaður Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×