Innlent

Viðbragða að vænta vegna United Silicon

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Frá því að ljósbogaofn United Silicon var gangsettur á síðasta ári hefur Umhverfisstofnun borist meira en fimmtán hundruð kvartanir vegna mengunar frá verksmiðjunni. Umhverfisstofnun segir að viðbragða sé að vænta vegna þess eftirlits sem farið hefur fram undanfarna mánuði.

Íbúafundur verður haldinn í Reykjanesbæ á morgun vegna verksmiðjunnar og munu fulltrúar frá bæjarstjórn og Umhverfisstofnun sitja fundinn.

„Það stendur yfir vinna hjá Umhverfisstofnun á yfirferð frávika, uppgjöri frávika frá því að starfsemi hófst, og eins viðbrögð við því hvernig gengið hefur síðan fyrirtækið fékk heimild til uppkeyrslu á ný í maí síðastliðnum,“ segir Sigrún Ágústsdóttir, sviðstjóri hjá Umhverfisstofnun.

Hvernig hefur verið tekist á við sífelldar bilanir frá því að þið heimiluðuð gangsetningu?

„Við höfum fengið reglulega gögn frá fyrirtækinu um afl ofnsins. Við höfum farið yfir niðurstöðu mælinga og þessara sérstöku mælinga sem farið var í af norsku rannsóknarstofunni. Við höfum verið að vinna úr kvörtunum íbúa og svarað þeim. Þetta er auðvitað talsvert verk en í þessu felst okkar vinna,“ segir Sigrún.

Þið hafið fengið um 400 kvartanir bara í ágústmánuði vegna lyktarmengunar. Þær eru komnar á fimmtánda hundrað. Hvað á að leyfa þessu að viðgangast lengi?

„Þetta er allt í vinnslu hjá stofnunni. Viðbrögð við því hvernig hefur gengið og það þarf að senda fyrirtækinu skilaboð um það hvaða úrbóta þarf að grípa til.“



Er fregna að vænta frá ykkur og ykkar eftirliti?

„Þetta er í vinnslu eins og ég sagði en það tekur ekki langan tíma að vinna úr þessu eins og komið er.“

Kvartanir frá íbúum vegna mengunar frá verksmiðjunni skipta hundruðum síðustu misserin.vísir/vilhelm

Kvartanir íbúa Reykjanesbæjar eru orðnar fleiri en eitt þúsund

Starfsemi United Silicon hefur verið þyrnum stráð frá því ljósbogaofn verksmiðjunnar var gangsettur 13. nóvember á síðasta ári en strax í upphafi tóku kvartanir að berast frá íbúum Reykjanesbæjar vegna lyktarmengunar.

Íbúar eru orðnir langþreyttir á sífelldum tilraunum við gangsetningu ofnsins en vandamálið virðist snúa að því að ekki hefur verið hægt að keyra verksmiðjuna á fullum afköstum.

Kvartanir íbúa Reykjanesbæjar eru orðnar fleiri en eitt þúsund og fóru fyrst að berast að berast Umhverfisstofnun aðeins tveimur dögum eftir að ljósbogaofninn var gangræstur en þar á eftir kom holskefla kvartana. Kvartanir eins og mikil óþægindi í hálsi, nefi og augum. Höfuðverkur, aukin astmaeinkenni og erfitt að draga andann eru algengar í kvörtunum til stofnunarinnar jafnt frá fullorðnum sem og börnum.

Þrír brunar orðið á athafnasvæði verksmiðjunnar og eftir eldsvoða þann 18. apríl síðastliðinn stöðvaði Umhverfisstofnun starfsemi verksmiðjunnar og voru sérfræðingar frá Noregi og framleiðendur búnaðarins fengnir til þess að finna lausn á lyktarmengun frá verksmiðjunni.

Frá upphafi hafa rafskaut ítrekað brotnað, nú síðast í gær eftir að ofninn var endurræstur, sem hefur þær afleiðingar að slökkva þarf á honum aftur. Þá tapaði verksmiðjan máli gegn Íslenskum aðalverktökum og var verksmiðjunni gert af gerðardómi að greiða fyrirtækinu einn milljarð króna sem hefur reynst þungur biti.

Á morgun munu andstæðingar stóriðju í Helguvík halda íbúafund vegna stöðu stóriðjunnar en í síðustu viku veitti Héraðsdómur Reykjaness stjórn United Silicon heimild til greiðslustöðvunar til þess að ná bindandi nauðasamningum við lánardrottna.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar bókaði svo á fundi sínum í síðustu viku þá ósk til Umhverfisstofnunar að verksmiðjunni yrði lokað á meðan nauðsynlegar úrbætur eru gerðar til að koma í veg fyrir mengun.


Tengdar fréttir

Kísilmálmverksmiðja United Silicon annar ekki eftirspurn

"Við önnum ekki eftirspurn,“ segir Kristleifur Andrésson, talsmaður United Silicon, um framleiðslu kísilmálmverksmiðjunnar í Helguvík. Félagið hefur flutt út kísilmálm frá Helgavíkurhöfn hálfsmánaðarlega frá því í byrjun desembermánaðar í fyrra og segir Kristleifur verðið á erlendum mörkuðum vera á hraðri uppleið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×