Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Stjarnan - FH 1-1 | Dramatískt í Garðabænum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Brynjar Gauti og Pétur í baráttunni.
Brynjar Gauti og Pétur í baráttunni. Vísir/Vilhelm
Valsmenn fögnuðu líklega mest þegar ljóst varð að Stjarnan og FH urðu að sættast við skiptan hlut í lokaleik 17. umferðar Pepsi-deildar karla í kvöld. Úrslitin þýða að Valur er með sjö stiga forystu á toppi deildarinnar og í lykilstöðu fyrir lokasprettinn í september.

Eins og svo oft áður þegar Stjarnan og FH mætast var mönnum heitt í hamsi í kvöld. FH komst yfir í lok fyrri hálfleiks er Kassim Doumbia skallaði í Alex Þór Hauksson og í markið. Lengi vel leit út fyrir að það myndi duga til sigurs en Hólmbert Aron Friðjónsson jafnaði metin í uppbótartíma.

Eftir leikinn sauð upp úr er leikmönnum og þjálfurum liðanna lenti saman. Því lauk með að Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, dómari leiksins, gaf Pétri Viðarssyni rautt spjald og veitti þeim Brynjari Birni Gunnarssyni og Davíð Snorra Jónassyni brottvísanir.

Önnur eins uppákoma eins og átti sér stað eftir leik í kvöld hefur ekki sést í fjölda ára í efstu deild hér á landi og líklegt að hún verði til umfjöllunar næstu daga.

Eins og gefur að skilja var mikið undir í kvöld enda bæði lið á síðasta séns að ná titlinum af Valsmönnum sem eru í sterkri stöðu á toppnum. Stjörnumenn geta nagað sig í handabökin að hafa ekki nýtt færin sín betur í fyrri hálfleik og það reyndist sérstaklega dýrt eftir mark FH-inga.

Gestirnir úr Hafnarfirði spiluðu betur í síðari hálfleik en þeim fyrri en bæði lið sköpuðu sér fá færi í síðari hálfleik. Þó var nóg af umdeildum atvikum sem og Vilhjálmur Alvar, dómari leiksins, var oftar en ekki í sviðsljósinu en Stjörnumenn vildu í tvígang fá vítaspyrnu í leiknum sem þeir fengu ekki.

Af hverju varð jafntefli?

Stjörnumenn nýttu ekki færin sín í leiknum en þeir fengu tækifæri til að gera hreinlega út um leikinn í fyrri hálfleik. Það gerðu þeir ekki og mark FH varð því enn meira svekkjandi fyrir heimamenn en ella. Stjörnumenn náðu svo lítið að skapa sér í bragðdaufum síðari hálfleik - þar til í uppbótartíma er markið dýrmæta kom. Það mátti svo litlu muna að Stjarnan næði öllum stigunum en allt kom fyrir ekki.

Hverjir stóðu upp úr?

Gunnar Nielsen átti stórleik í marki FH og vörn FH-inga var öflug. Rauða spjaldið sem Pétur fékk setur svartan blett á annars góða frammistöðu hans í leiknum. Hilmar Árni var sem fyrr öflugur í liði Stjörnunnar sem spilaði á löngum köflum vel í leiknum en þegar nýtingin á færunum er ekki betri en raunin varð er erfitt að hrósa Garðbæingum í hástert fyrir frammistöðuna.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Stjörnunnar. Hann átti að skila meiri mörkum af sér en hann gerði. Sóknarleikur FH var sömuleiðis ekki nógu beittur og langt í frá.

Hvað gerist næst?

FH mætir KR í hörkuleik á fimmtudag þar sem Hafnfirðingar verða að vinna til að halda í veika von um að ná í skottið á Valsmönnum. Eftir það fer deildin í landsleikjafrí en næsti leikur Stjörnunnar verður gegn Víkingi Reykjavík í Fossvogi.

Maður leiksins: Gunnar Nielsen, FH.

Einkunnir leikmanna má sjá í liðsflipanum fyrir ofan.

Rúnar Páll: Nánast fullkomin frammstaða
Hólmbert Aron skoraði fyrir Stjörnuna.Vísir/Vilhelm
Rúnar Páll Sigmundsson var sáttur við frammistöðu sinna manna og lofaði sína menn mjög þrátt fyrir niðurstöðuna í leiknum.

„Það er hrikalega fúlt að fá ekki þrjú stig. Mér fannst bara eitt lið á vellinum. Þeir fengu tvær hornspyrnur og skoruðu úr annarri þeirra,“ sagði Rúnar Páll eftir leikinn.

„Meira fengu þeir ekki. Við vorum afar öflugir og það var mjög sætt að jafna í lokin. En við fengum fullt af færum sem við nýttum ekki. En spilamennskan var upp á 9,5 - jafnvel 9,8. Nánast fullkomin.“

Hann segir ljóst að það verður erfitt að taka titilinn af Val úr þessu. „Það eru enn fimmtán stig í pottinum og það er allt hægt í þessum bransa. Við höldum áfram eftir landsleikjafrí og komum tvíefldir í það. Við erum mjög öflugir í september.“

Það sauð upp úr í lokin en Rúnar Páll sagði að það þýddi ekkert að spyrja hann út í það. „Svona er þetta oft á milli þessara liða. Hörkurígur. Þeir voru kannski að kvarta ekki að fá ekki aukaspyrnu þegar við skorum og við að kvarta þegar við fáum ekki víti, þegar Baldur er keyrður niður.“

Heimir: Stjörnumenn góla kerfisbundið á dómarann
Pétur Viðarsson fékk rautt eftir leikinn.Vísir/Vilhelm
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, var óánægður með niðurstöðuna þegar hans menn misstu niður 1-0 forystu gegn Stjörnunni í uppbótartíma.

„Mér fannst við hálfklaufalegir í restina. Við vorum komnir upp vænginn og hefðum átt að vera klókir - fá innkast og svæfa leikinn. Í staðinn þá reyndum við fyrirgjöf. Ég held reyndar að það hafi eitthvað skrýtið verið við þetta jöfnunarmark.“

Hann segir að Stjörnumenn hafi verið sterkari aðilinn í fyrri hálfleik. „Við vorum samt betri í þeim seinni og þetta hefði verið sanngjarn sigur ef við hefðum náð að landa þessu. En það er bara einn maður sem er hlæjandi í bankann núna - það er Óli Jó.“

Heimir vísaði þá til þjálfara Vals sem trónir á toppi deildarinnar með sjö stiga forystu á Stjörnuna. FH er tólf stigum á eftir Val en á tvo leiki til góða.

„Við þurftum að taka þrjú stig. En á móti kemur er að við höldum áfram. Næst er erfiður leikur gegn og þurfum við bara að Valur misstígi sig og það er aldrei góðs viti.“

Heimir sá ekki hvað gerðist í lokin, þegar það sauð upp úr á milli liðanna. Hann sendi þó Stjörnunni tóninn.

„Það er þannig með Stjörnuna, þeir eru kerfisbundið gólandi á dómarann, fjórða dómarann og línuvörðinn. Þetta var farið að fara í pirrurnar á mönnum. Davíð [Snorri] er þar fremstur í flokki, og þá geta hlutirnir endað svona.“

„En varðandi Villa [Vilhjálm Alvar Þórarinnson] dómara. Villi greyið sem er mjög góður dómari, hann hefur aðeins misst sjálfstraustið þegar misvitrir menn tóku hann af lífi eftir Víkingur Reykjavík - KA.“

Baldur: Við áttum að fá víti
Baldur í leiknum.Vísir/Vilhelm
Baldur Sigurðsson, þjálfari Stjörnunnar, vildi meira úr leiknum en bara eitt stig.



„Við vildum fá meira. Við vorum góðir, allan leikinn. Bæði í ljósi frammistöðunnar og stöðunnar í deildinni hefðum við viljað mjög mikið að fá þrjú stig. Þetta er því ótrúlega svekkjandi,“ sagði Baldur.

„Þetta gefur okkur lítið í toppbaráttunni og þetta er þungt eftir leikinn. Það vantaði bara upp á að klára þessi færi. Við hefðum þó getað stolið þessu í lokin með færinu hans Jobba.“

Hann segir að það hafi verið mörg vafaatriði í leiknum. „Ég get ekki dæmt um öll en ég get þó sagt að ég var tekinn niður í teignum og það átti að vera klár vítaspyrna. Dómarnir féllu ekki með okkur eins og stundum er.“

Baldur veit ekki af hverju það sauð upp úr í leikslok. „Þetta er heimskulegt og á ekki að sjást. Það er engin ástæða til að standa í svona rugli.“

Davíð: Urðu smá læti
Vísir/Vilhelm
Davíð Þór Viðarsson var ekki ánægður með dómgæsluna í leik FH og Stjörnunnar í kvöld, sérstaklega þegar Stjarnan skoraði jöfnunarmark leiksins.

„Það var svekkjandi að fá á sig jöfnunarmarkið. Það lengist bilið í Valsmenn og ljóst að þetta verður erfitt úr þessu. Valur er í hrikalega góðum málum núna,“ sagði fyrirliði FH sem játar því að hans menn hafi ekki komist almennilega í gang í kvöld.

„Það var of langt á milli línanna hjá okkur og við virkuðum þreyttir. Við gerðum samt nóg til að vinna leikinn, heilt yfir.“

Davíð Þór var að ræða við dómara leiksins þegar allt varð vitlaust skömmu eftir að flautað var til leiksloka. „Ég var að láta skoðun mína í ljós á dómaranum og þessari ákvörðun um að dæma ekki aukaspyrnu þegar Stjarnan skoraði markið. Það voru einhverjir Stjörnumenn sem blönduðu sér í það og urðu smá læti.“

„Ég veit ekki hvað Pétur gerði, hvort hann gerði eitthvað sem verðskuldaði rautt spjald frekar en einhvern annar. En dómarinn tók þessa ákvörðun og hlýtur hann að hafa haft eitthvað fyrir sér - sem hann hafði ekki þegar hann sleppti aukaspyrnu í markinu þeirra.“

Hann segir að það sé rígur á milli þessara tveggja liða. „Það var líka mikið undir í kvöld og gífurlegt svekkelsi hjá báðum liðum eftir leik að hafa ekki klárað þetta.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira